Heimskringla/Ólafs saga helga/204

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá flytja þeir her sinn út til Stafs. En er hann kom á Stafamýrar þá átti hann dvöl. Þá spurði hann til sanns að bændur fóru með her móti honum og það að þá mundi hann orustu eiga brátt. Þá kannaði konungur lið sitt og var skorað manntal. Þá fundust í hernum níu hundruð heiðinna manna.

En er konungur vissi það þá bað hann þá skírast láta, segir svo að hann vill eigi heiðna menn hafa í orustu með sér. „Munum vér,“ segir hann, „ekki mega treystast liðsfjölda. Guði skulum vér treystast því að með krafti og miskunn munum vér sigur fá en eigi vil eg blanda heiðnu fólki við menn mína.“

En er það heyrðu heiðingjar þá báru þeir saman ráð sín og að lyktum létu skírast fjögur hundruð manna en fimm hundruð neittu kristni og sneri það lið aftur til síns lands.

Þá ganga þar fram þeir bræður með sitt lið, Gauka-Þórir og Afra-Fasti, og bjóða konungi enn gengi sitt. Hann spyr ef þeir hefðu þá skírn tekið. Gauka-Þórir segir að það var eigi. Konungur bað þá taka skírn og trú rétta en fara á brott að öðrum kosti. Þeir sneru þá frá í brott og tóku tal sín í milli og réðu um hvert ráð upp skyldi taka.

Þá mælti Afra-Fasti: „Svo er að segja frá mínu skapi að eg vil ekki aftur hverfa. Mun eg fara til orustu og veita lið öðrum hvorum en eigi þykir mér skipta í hvorum flokki eg em.“

Þá svarar Gauka-Þórir: „Ef eg skal til orustu fara þá vil eg konungi lið veita því að honum er liðs þörf meiri. En ef eg skal á guð nokkuð trúa, hvað er mér verra að trúa á Hvíta-Krist en á annað goð? Nú er það mitt ráð að vér látum skírast ef konungi þykir það miklu máli skipta, förum þá síðan til orustu með honum.“

Þessu játa þeir allir, ganga síðan til konungs og segja að þeir vilja þá skírn taka. Voru þeir þá skírðir af kennimönnum og voru biskupaðir. Konungur tók þá í hirðlög með sér og segir að þeir skyldu vera undir merki hans í orustu.