Heimskringla/Ólafs saga helga/206

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Svo er sagt að þá er Ólafur konungur fylkti liði sínu þá skipaði hann mönnum í skjaldborg er halda skyldi fyrir honum í bardaga og valdi þar til þá menn er sterkastir voru og snarpastir.

Þá kallaði hann til sín skáld sín og bað þá ganga í skjaldborgina. „Skuluð þér,“ segir hann, „hér vera og sjá þau tíðindi er hér gerast. Er yður þá eigi segjandi saga til, því að þér skuluð frá segja og yrkja um síðan.“

Þar var þá Þormóður Kolbrúnarskáld og Gissur gullbrá fóstri Hofgarða-Refs og hinn þriðji Þorfinnur munnur.

Þá mælti Þormóður til Gissurar: „Stöndum eigi svo þröngt lagsmaður að eigi nái Sighvatur skáld rúmi sínu þá er hann kemur. Hann mun vera vilja fyrir konungi og ekki mun konungi annað líka.“

Konungur heyrði þetta og svarar: „Ekki þarf Sighvati að sneiða þótt hann sé eigi hér. Oft hefir hann mér vel fylgt. Hann mun nú biðja fyrir oss og mun þess enn allmjög þurfa.“

Þormóður segir: „Vera má það konungur að þér sé nú bæna mest þörf en þunnt mundi vera um merkistöngina ef allir hirðmenn þínir væru nú á Rúmavegi. Var það og satt að vér töldum þá að því, er engi fékk rúm fyrir Sighvati þótt mæla vildi við yður.“

Þá mæltu þeir sín á milli, sögðu að það væri vel fallið að yrkja áminningarvísur nokkurar um þau tíðindi er þá mundu brátt að höndum berast.

Þá kvað Gissur:

Skala óglaðan, Ifa,
orð fregni það, borða
búumk við þröng á þingi,
þegns dóttir mig fregna,
þótt sigrrunnar svinnir
segi von Héðins kvonar.
Verum í Ála éli
austr bragningi að trausti.

Þá kvað Þorfinnur munnur aðra vísu:

Rökkr að regni miklu
randar garðs hins harða.
Vill við vísa snjallan
Verdæla lið berjast.
Verjum allvald örvan.
Ölum teitan má sveita.
Fellum Þrændr í Þundar,
þess eggjumst vér, hreggi.

Þá kvað Þormóður:

Ála þröngr að éli,
örstiklandi, miklu.
Skyldu eigi skelknir höldar,
skálmöld vex nú, fálma.
Búumst við sókn, en slækni
seggr skuli orð um forðast,
er að geirþingi göngum,
gunnreifr, með Óleifi.

Vísur þessar námu menn þá þegar.