Heimskringla/Ólafs saga helga/223

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


En er skipað var til fylkingar bónda þá töluðu lendir menn og báðu liðsmenn gefa gaum að um stöður sínar, hvar hverjum var skipað eða undir hverju merki þá skyldi hver vera eða hvert frá merkinu eða hversu nær honum var skipað merkinu. Báðu þeir menn vera þá vakra og skjóta að ganga í fylking er lúðrar kvæðu við og herblástur kæmi upp og ganga þá fram í fylking því að þeir áttu þá enn leið mjög langa að flytja herinn og var þess von að fylkingar mundu bregðast í hergöngunni. Síðan eggjuðu þeir liðið.

Mælti Kálfur að allir þeir menn er harma og heiftir áttu að gjalda Ólafi konungi skyldu þá fram ganga undir þau merki er fara skyldu í móti merki Ólafs, vera þá minnigir þeirra meingerða er hann hafði þeim veitt, segir að þeir mundu eigi komast í betra færi að hefna harma sinna og frelsa sig svo frá þeirri ánauð og þrældóm er hann hafði þá undir lagt. „Er nú sá,“ segir hann, „bleyðimaður er eigi berst nú sem djarflegast, því að eigi er saklaust við þá er í móti yður eru. Munu þeir eigi yður spara ef þeir komast í færi.“

Að máli hans varð allmikill rómur. Varð þá kall mikið og eggjan um allan herinn.