Heimskringla/Ólafs saga helga/232

Úr Wikiheimild

Bændur þeir er heimili áttu í Veradal gengu til fundar við höfðingja, Hárek og Þóri, og kærðu fyrir þeim sín vandræði, sögðu svo: „Flóttamenn þessir er hér hafa undan komist munu fara upp eftir Veradal og munu búa óheppilega heimilum vorum en oss er ekki fært heim meðan þeir eru hér í dalnum. Nú gerið svo vel, farið eftir þeim með liði og látið ekki barn í brott komast því að slíkan kost mundu þeir oss ætla ef þeir hefðu betur haft í vorum fundi og svo munu þeir enn gera ef vér hittumst síðar svo að þeir hafi meira kost en vér. Kann vera að þeir dveljist í dalnum ef þeir vænta sér einskis ótta. Munu þeir þegar fara óspaklega um byggðir vorar.“

Ræddu bændur um þetta mörgum orðum og eggjuðu með ákafa miklum að höfðingjar skyldu fara og drepa það fólk sem undan hafði komist.

Og er höfðingjar ræddu þetta sín í milli þá þótti þeim bændur mart satt sagt hafa í sinni ræðu, réðu þá það að þeir Þórir hundur snerust til ferðar með Verdælum og hafði hann sex hundruð manna, það er hans lið var, fóru síðan. Tók þá að nátta.

Létti Þórir eigi fyrr ferðinni en hann kom um nóttina á Súlu og spurði hann þar þau tíðindi að um kveldið hafði þar komið Dagur Hringsson og margar aðrar sveitir af Ólafs mönnum, haft þar náttverðardvöl en farið síðan á fjall upp.

Þá segir Þórir að hann mundi ekki rekast eftir þeim um fjöll og sneri hann þá aftur ofan í dalinn og fengu þeir þá fátt drepið af mönnum. Síðan fóru bændur til heimila sinna en Þórir fór eftir um daginn og hans lið út til skipa sinna.

En konungsmenn þeir er færir voru forðuðu sér, leyndust í skógum, sumir höfðu hjálp af mönnum.