Heimskringla/Ólafs saga helga/234

Úr Wikiheimild

Þormóður gekk síðan í brott til skemmu nokkurrar, gekk þar inn. Voru þar áður margir menn inni fyrir sárir mjög. Var þar að kona nokkur og batt um sár manna. Eldur var á gólfinu og vermdi hún vatn til að fægja sárin. En Þormóður settist niður við dyr utar. Þar gekk annar maður út en annar inn, þeir er störfuðu að sárum manna.

Þá sneri einnhver að Þormóði og sá á hann og mælti síðan: „Hví ertu svo fölur? Ertu sár eða fyrir hví biður þú þér eigi lækningar?“

Þormóður kvað þá vísu:

Emka eg rjóðr, en rauðum
ræðr grönn Skögul manni
hauka setrs hin hvíta.
Hyggr fár um mig sáran.
Hitt veldr mér að, meldrar
morðvenjandi Fenju,
djúp og danskra vopna
dals hríðar spor svíða.

Síðan stóð Þormóður upp og gekk inn að eldinum og stóð þar um hríð.

Þá mælti læknirinn til hans: „Þú, maður, gakk út og tak mér skíðin er hér liggja fyrir durum úti.“

Hann gekk út, bar inn skíðafangið og kastaði niður á gólfið.

Þá sá læknirinn í andlit honum og mælti: „Furðu bleikur er þessi maður. Hví ertu slíkur?“

Þá kvað Þormóður:

Undrast öglis landa
eik hví vér róm bleikir.
Fár verðr fagr af sárum.
Fann eg örvadrif, svanni.
Mik fló málmr hinn klökkvi,
magni keyrðr, í gegnum.
Hvasst beit hjarta hið næsta
hættlegt járn er eg vætti.

Þá mælti læknirinn: „Láttu mig sjá sár þín og mun eg veita umbönd.“

Síðan settist hann niður og kastaði klæðum af sér.

En er læknir sá sár hans þá leitaði hún um það sár er hann hafði á síðunni, kenndi þess að þar stóð járn í en það vissi hún eigi til víss hvert járnið hafði snúið. Hún hafði þar gert í steinkatli, stappað lauk og önnur grös og vellt það saman og gaf að eta hinum sárum mönnum og reyndi svo hvort þeir hefðu holsár, því að kenndi af laukinum út úr sári því er á hol var. Hún bar það að Þormóði, bað hann eta.

Hann svarar: „Ber brott. Ekki hefi eg grautsótt.“

Síðan tók hún spennitöng og vildi draga út járnið en það var fast og gekk hvergi, stóð og lítið út því að sárið var sollið.

Þá mælti Þormóður: „Sker þú til járnsins svo að vel megi ná með tönginni, fá mér síðan og lát mig kippa.“

Hún gerði sem hann mælti.

Þá tók Þormóður gullhring af hendi sér og fékk lækninum, bað hana gera af slíkt er hún vildi. „Góður er nautur að,“ segir hann, „Ólafur konungur gaf mér hring þenna í morgun.“

Síðan tók Þormóður töngina og kippti á brott örinni. En þar voru á krókar og lágu þar á tágar af hjartanu, sumar rauðar, sumar hvítar, og er hann sá það mælti hann: „Vel hefir konungurinn alið oss. Feitt er mér enn um hjartarætur.“

Síðan hné hann aftur og var þá dauður.

Lýkur þar frá Þormóði að segja.