Heimskringla/Ólafs saga helga/244

Úr Wikiheimild

Grímkell biskup fór til fundar við Einar þambarskelfi. Tók Einar feginsamlega við biskupi, ræddu þá síðan marga hluti, svo það er þar hafði í landi stórtíðindi orðið. Urðu þeir á allar ræður sáttir sín á milli.

Síðan fór biskup inn til Kaupangs. Tók þar öll alþýða vel við honum. Hann spurði vendilega eftir um tákn þau er sögð voru frá Ólafi konungi. Spurðist honum vel til þess. Síðan gerði biskup orðsendingar inn á Stiklastaði til Þorgils og Gríms sonar hans og stefndi þeim út til bæjar á fund sinn.

Þeir feðgar lögðust þá ferð eigi undir höfuð. Fóru þeir út til bæjar á fund biskups. Þá segja þeir honum öll þau merki er þeir höfðu vísir orðið, svo það og hvar þeir höfðu komið líki konungs.

Síðan sendi biskup eftir Einari þambarskelfi og kom Einar til bæjar. Höfðu þeir Einar og biskup þá ræðu við konung og Alfífu og báðu að konungur skyldi lof til gefa að lík Ólafs konungs skyldi taka upp úr jörðu. Konungur lagði þar lof á og bað biskup þar með fara sem hann vildi. Þá var þar mikið fjölmenni í bænum.

Biskup og Einar og menn með þeim fóru til þar er lík konungsins var jarðað og létu þar til grafa. Kistan var þá komin upp mjög svo úr jörðu. Það var margra manna tillag að biskup léti konung grafa niður í jörð að Klemenskirkju.

En er liðið var frá andláti Ólafs konungs tólf mánaður og fimm nætur þá var upp tekinn heilagur dómur hans. Var þá enn kistan komin upp mjög úr jörðu og var þá kistan Ólafs konungs spánósa svo sem nýskafin væri.

Grímkell biskup gekk þá til þar er upp var lokin kistan Ólafs konungs. Var þar dýrlegur ilmur. Þá beraði biskup andlit konungs og var engan veg brugðið ásjónu hans, svo roði í kinnunum sem þá mundi ef hann væri nýsofnaður. Á því fundu menn mikinn mun, þeir er séð höfðu Ólaf konung þá er hann féll, að síðan hafði vaxið hár og negl því næst sem þá mundi ef hann hefði lífs verið hér í heimi alla þá stund síðan er hann féll.

Þá gekk til að sjá líkama Ólafs konungs Sveinn konungur og allir höfðingjar þeir er þar voru.

Þá mælti Alfífa: „Furðu seint fúna menn í sandinum. Ekki mundi svo vera ef hann hefði í moldu legið.“

Síðan tók biskup söx og skar af hári konungsins og svo að taka af kömpunum. Hann hafði haft langa kampa svo sem þá var mönnum títt. Þá mælti biskup til konungs og Alfífu: „Nú er hár konungs og kampar svo sítt sem þá er hann andaðist en þvílíkt vaxið sem nú sjáið þér hér af skorið.“

Þá svarar Alfífa: „Þá þykir mér hár það heilagur dómur ef það brennur eigi í eldi. En oft höfum vér séð hár manna heilt og ósakað, þeirra er í jörðu hafa legið lengur en þessi maður.“

Síðan lét biskup taka eld í glóðarkeri og blessaði og lagði á reykelsi. Síðan lagði hann í eldinn hár Ólafs konungs og þá er brunnið var reykelsið allt þá tók biskup upp hárið úr eldinum og var þá hárið óbrunnið. Lét biskup það sjá konung og aðra höfðingja.

Þá bað Alfífa leggja hárið í óvígðan eld. Þá svarar Einar þambarskelfir, bað hana þegja og valdi henni mörg hörð orð. Var það þá biskups atkvæði og konungs samþykki og dómur allsherjar að Ólafur konungur væri sannheilagur.

Var þá líkami konungs borinn inn í Klemenskirkju og veittur umbúnaður yfir háaltari. Var kistan sveipt pelli og tjaldað allt guðvefjum. Urðu þá þegar margs konar jartegnir að helgum dómi Ólafs konungs.