Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/251

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
251. Austurferð Einars og Kálfs


Um vorið snemma byrja þeir ferð sína Einar þambarskelfir og Kálfur Árnason og höfðu mikla sveit manna og hið besta mannval er til var í Þrændalögum. Þeir fóru um vorið austur um Kjöl til Jamtalands, þá til Helsingjalands og komu fram í Svíþjóð, réðu þar til skipa, fóru um sumarið austur í Garðaríki, komu um haustið í Aldeigjuborg.

Gerðu þeir þá sendimenn upp til Hólmgarðs á fund Jarisleifs konungs með þeim orðsendingum að þeir buðu Magnúsi syni Ólafs konungs hins helga að taka við honum og fylgja honum til Noregs og veita honum styrk til þess að hann næði föðurleifð sinni og halda hann til konungs yfir landi.

En er þessi orðsending kom til Jarisleifs konungs þá tók hann ráðagerð við drottningina og aðra höfðingja sína. Kom það ásamt með þeim að Norðmönnum voru orð ger og stefnt þeim þannug á fund Jarisleifs konungs og þeirra Magnúss. Voru þeim grið seld til þeirrar ferðar.

En er þeir komu til Hólmgarðs þá staðfestist það með þeim að Norðmenn þeir er þar voru komnir gengu til handa Magnúsi og gerðust hans menn og bundu það svardögum við Kálf og alla þá menn er á Stiklastöðum höfðu verið í mót Ólafi konungi.

Veitti Magnús tryggðir og fulla sætt og festi svardögum að hann skyldi vera þeim öllum tryggur og trúr þótt hann fengi í Noregi ríki og konungdóm. Skyldi hann gerast fósturson Kálfs Árnasonar en Kálfur vera skyldur að gera þau verk öll er Magnúsi þætti þá vera sitt ríki meira eða frjálsara en áður.