Heimskringla/Ólafs saga helga/27
Það sumar komu synir Aðalráðs konungs af Englandi til Rúðu í Valland til móðurbræðra sinna er Ólafur Haraldsson kom vestan úr víking og voru allir þann vetur í Norðmandí og bundu lag sitt saman með þeim skildaga að Ólafur konungur skyldi hafa Norðimbraland ef þeir eignuðust England af Dönum.
Þá sendi Ólafur konungur um haustið Hrana fóstra sinn til Englands að eflast þar að liði og sendu Aðalráðssynir hann með jartegnum til vina sinna og frænda en Ólafur konungur fékk honum lausafé mikið að spenja lið undir þá. Og var Hrani um veturinn í Englandi og fékk trúnað margra ríkismanna og var landsmönnum betur viljað að hafa samlenda konunga yfir sér en þó var þá orðinn svo mikill styrkur Dana í Englandi að allt landsfólk var undir brotið ríki þeirra.