Heimskringla/Ólafs saga helga/29

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur lét þar eftir vera langskipin en bjó þaðan knörru tvo og hafði hann þá tuttugu menn og tvö hundruð, albrynjað og valið mjög. Hann sigldi norður í haf um haustið og fengu ofviðri mikið í hafi svo að mannhætt var en með því að þeir höfðu liðskost góðan og hamingju konungs þá hlýddi vel.

Svo segir Óttar:

Valfasta, bjóstu vestan,
veðrörr, tvo knörru.
Hætt hafið ér í ótta
oft, skjöldunga þofti.
Næði straumr, ef stæði,
strangr kaupskipum angra,
innan borðs á unnum
erringar lið verra.

Og enn svo:

Eigi hræddust ægi,
ér fóruð sjá stóran.
Allvaldr um getr aldar
engi nýtri drengi.
Oft varð fars, en forsi
flaust hratt af sér bröttum,
neytt, áðr Noreg beittuð,
niðjungr Haralds, miðjan.

Hér segir það að Ólafur konungur kom utan að miðjum Noregi. En sú ey heitir Sæla er þeir tóku land út frá Staði. Þá mælti konungur, lét það mundu vera tímadag er þeir höfðu lent við Sælu í Noregi og kvað það vera mundu góða vitneskju er svo hafði að borist. Þá gengu þeir upp á eyna. Stígur konungur þar öðrum fæti sem var leira nokkur en studdist öðrum fæti á kné.

Þá mælti hann: „Féll eg nú,“ segir konungur.

Þá segir Hrani: „Eigi féllstu konungur, nú festir þú fætur í landi.“

Konungur hló við og mælti: „Vera má svo ef guð vill.“

Ganga þá ofan til skipa og sigldu suður til Úlfasunda. Þar spurðu þeir til Hákonar jarls, að hann var suður í Sogni og var hans þá von norður þegar er byr gæfi og hafði hann eitt skip.