Heimskringla/Ólafs saga helga/38

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá hóf Ólafur konungur þegar ferð sína og lét bjóða upp veislur fyrir sér þar sem konungsbú voru. Fór hann fyrst um Haðaland og þá sótti hann norður í Guðbrandsdala. Fór þá svo sem Sigurður sýr hafði getið að lið dreif til hans svo mart að hann þóttist eigi hálft þurfa og hafði hann þá nær þremur hundruðum manna. Þá entust honum ekki veislurnar sem ákveðið var, því að það hafði verið siðvenja að konungar fóru um Upplönd með sex tigu manna eða sjö tigu en aldrei meir en hundrað manna. Fór konungur skjótt yfir og var eina nótt í sama stað. En er hann kom norður til fjalls þá byrjar hann ferð sína, kemur norður um fjallið og fór til þess er hann kom norður af fjallinu.

Ólafur konungur kom ofan í Uppdal og dvaldist þar um nótt. Síðan fór hann Uppdalsskóg og kom fram í Meðaldal, krafði þar þings og stefndi þar til sín bóndum. Síðan talaði konungur á þinginu og krafði bændur sér viðurtöku, bauð þeim þar í móti rétt og lög svo sem boðið hafði Ólafur konungur Tryggvason.

Búendur höfðu engi styrk til þess að halda ósætt við konung og lauk svo að þeir veittu konungi viðurtöku og bundu það svardögum. En þó höfðu þeir áður gert njósn ofan í Orkadal og svo í Skaun og létu segja um ferð Ólafs konungs allt það er þeir vissu af.