Heimskringla/Ólafs saga helga/40

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ólafur konungur fór með liði sínu ofan til Orkadals. Fór hann allspaklega og með friði.

En er hann kom út á Grjótar mætti hann þar búandasafnaði og höfðu þeir meir en sjö hundruð manna. Fylkti þá konungur liði sínu því að hann hugði að bændur mundu berjast vilja. En er bændur sáu það þá tóku þeir að fylkja og varð þeim allt ómjúkara því að áður var ekki um ráðið hver höfðingi skyldi vera fyrir þeim.

En er Ólafur konungur sá það að bóndum tókst ógreitt þá sendi hann til þeirra Þóri Guðbrandsson. En er hann kom segir Þórir að Ólafur konungur vill ekki berjast við þá. Hann nefndi tólf menn, þá er ágætastir voru í þeirra flokki, að koma til fundar við Ólaf konung. En bændur þekktust það og ganga fram yfir egg nokkura er þar verður, þar til er stóð fylking konungs.

Þá mælti Ólafur konungur: „Þér bændur hafið nú vel gert er eg á kost að tala við yður því að eg vil það yður segja um erindi mitt hingað til Þrándheims, það er í upphafi, að eg veit að þér hafið áður spurt, að vér Hákon jarl fundumst í sumar og lauk svo vorum skiptum að hann gaf mér ríki það allt er hann átti hér í Þrándheimi, en það er sem þér vitið Orkdælafylki og Gauldælafylki og Strindafylki og Eynafylki. En eg hefi hér vitnismenn þá er þar voru og handsal okkað jarls sáu og heyrðu orð og eiða og allan skildaga er jarl veitti mér. Vil eg yður lög bjóða og frið eftir því sem fyrir mér bauð Ólafur konungur Tryggvason.“

Hann talaði langt og snjallt og kom þar að lokum að hann bauð bóndum tvo kosti, þann annan að ganga til handa honum og veita honum hlýðni, sá var annar að halda þá við hann orustu.

Síðan fóru bændur aftur til liðs síns og sögðu sín erindi, leituðu þá ráðs við allt fólkið hvern þeir skyldu af taka. En þótt þeir kærðu þetta um hríð milli sín þá kuru þeir það af að ganga til handa konungi. Var það þá eiðum bundið af hendi bónda.

Skipaði konungur þá ferð sína og gerðu bændur veislur í móti honum. Fór konungur þá út til sjávar og ræður sér þar til skipa. Hann hafði langskip, tvítugsessu, af Gelmini frá Gunnars. Annað skip, tvítugsessu, hafði hann af Viggjum frá Loðins. Þriðja skip, tvítugsessu, hafði hann af Öngrum í Nesi. Þann bæ hafði átt Hákon jarl en þar réð fyrir ármaður sá er Bárður hvíti er nefndur. Konungur hafði skútur fjórar eða fimm. Fór hann og skyndilega og hélt inn eftir firði.