Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/52

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
52. Frá Sveini jarli


Ólafur konungur og hans menn sáu að jarl hafði saman lagt sínum skipum. Þá eggjaði Sigurður konungur sýr að þeir skyldu leggja að jarli og láta þá til stáls sverfa með þeim.

Ólafur konungur segir að hann vill sjá fyrst hvert ráð jarl tekur, hvort þeir halda saman flokkinum eða skilst við hann liðið.

Sigurður kvað hann ráða mundu „en það er mitt hugboð,“ segir hann, „við skaplyndi þitt og ráðgirni að seint tryggir þú þá stórbukkana svo sem þeir eru vanir áður að halda fullu til móts við höfðingja.“

Varð og ekki af atlögunni. Sáu þeir þá brátt að jarls lið skildist. Þá lét Ólafur konungur rannsaka valinn. Lágu þeir þar nokkurar nætur og skiptu herfanginu.

Þá kvað Sighvatur skáld vísur þessar:

Þess get eg meir, að missi
morðár, sá er fór norðan,
harða margr í hörðum
heimkomu styr þeima.
Sökk af syndiblakki,
sunnu, mörg til grunna,
satt er að Sveini mættum,
samknúta, vér úti.
Frýr eigi oss í ári
innþrænsk, þó að lið minna,
gert hugði eg svo, snertu,
snotr mær, konungs væri.
Brúðr mun heldr að háði
hafa drótt þá er fram sótti,
fold ruðum skers, ef skyldi,
skeggi, aðra tveggja.

Og enn þessa:

Afli vex því að efla
Upplendingar sendi,
Sveinn, funduð það, þenna
þilblakks konung vilja.
Raun er hins að Heinir,
hrælinns, megu vinna,
vér gerðum för, fleira
fólkreks en öl drekka.

Ólafur konungur gaf gjafar Sigurði konungi sýr mági sínum að skilnaði og svo öðrum höfðingjum þeim er honum höfðu lið veitt. Hann gaf Katli af Hringunesi karfa, fimmtánsessu, og flutti Ketill karfann upp eftir Raumelfi og allt upp í Mjörs.