Heimskringla/Ólafs saga helga/70

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ingibjörg var forkunnarvel til þeirra. Ræddi Björn fyrir henni um sitt mál og þótti það illa er dveljast skyldi svo lengi ferðin. Þau Hjalti ræddu oft öll saman um þetta.

Þá mælti Hjalti: „Eg mun fara til konungs er þér viljið. Eg em ekki norrænn maður. Munu Svíar mér engar sakir gefa. Eg hefi spurt að með Svíakonungi eru íslenskir menn í góðu yfirlæti, kunningjar mínir, skáld konungs, Gissur svarti og Óttar svarti. Mun eg þá forvitnast hvers eg verði var af Svíakonungi, hvort þetta mál mun svo óvænt sem nú er látið eða eru þar nokkur önnur efni í. Mun eg finna mér til erindis slíkt sem mér þykir fallið.“

Þetta þótti Ingibjörgu og Birni hið mesta snarræði og réðu þau þetta með sér til staðfestu. Býr þá Ingibjörg ferð Hjalta og fékk honum tvo menn gauska og bauð þeim svo að þeir skyldu honum fylgja og vera honum hendilangir bæði um þjónustu og svo ef hann vildi senda þá. Ingibjörg fékk honum til skotsilfurs tuttugu merkur vegnar. Hún sendi orð og jartegnir með honum til Ingigerðar dóttur Ólafs konungs að hún skyldi leggja allan hug á um hans mál hvers sem hann kynni hana að krefja að nauðsynjum.

Fór Hjalti þegar er hann var búinn. En er hann kom til Ólafs konungs þá fann hann brátt skáldin Gissur og Óttar og urðu þeir honum allfegnir og gengu þeir þegar með honum fyrir konung og segja þeir honum að sá maður var þar kominn, er samlendur var við þá og mestur maður var þar að virðingu á því landi, og báðu konung að hann skyldi honum vel fagna.

Konungur bað þá Hjalta hafa með sér í sveit og hans förunauta.

En er Hjalti hafði þar dvalist nokkura hríð og gert sér menn kunna þá virtist hann vel hverjum manni.

Skáldin voru oft fyrir konungi því að þeir voru máldjarfir. Sátu þeir oft um daga frammi fyrir hásæti konungs og Hjalti með þeim. Virtu þeir hann mest í öllu. Gerðist hann þá og konungi málkunnigur. Var konungur við hann málrætinn og spurði tíðinda af Íslandi.