Heimskringla/Ólafs saga helga/80

Úr Wikiheimild

Hinn fyrsta dag er þing var sett sat Ólafur konungur á stóli og þar hirð hans umhverfis. En annan veg á þingið sátu þeir á einum stóli Rögnvaldur jarl og Þorgnýr og sat þar fyrir þeim hirð jarls og húskarlasveit Þorgnýs en á bak stólinum stóð bóndamúgurinn og allt umhverfis í hring. Sumir fóru á hæðir og hauga að heyra þaðan til.

En er töluð voru erindi konungs, þau sem siður var til að mæla á þingum, og er því var lokið þá stóð upp Björn stallari hjá stóli jarls og mælti hátt: „Ólafur konungur sendi mig hingað þess erindis að hann vill bjóða Svíakonungi sætt og það landaskipti sem að fornu fari hefir verið milli Noregs og Svíþjóðar.“ Hann mælti hátt svo að Svíakonungur heyrði gerva.

En fyrst er Svíakonungur heyrði nefndan Ólaf konung þá hugði hann að sá mundi reka hans erindi en er hann heyrði rætt um sætt og landaskipti milli Svíþjóðar og Noregs þá skildi hann af hverjum rifjum rísa mundi. Þá hljóp hann upp og kallaði hátt að sá maður skyldi þegja og kvað slíkt ekki tjóa mundu. Björn settist þá niður.

En er hljóð fékkst þá stóð jarl upp og mælti. Hann sagði frá orðsending Ólafs digra og sættarboðum við Ólaf Svíakonung og frá því að Vestur-Gautar sendu Ólafi konungi öll orð til að sætt skyldi gera við Noregsmenn. Taldi hann upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í en í annan stað að sitja fyrir áhlaupum þeirra og hernaði ef Noregskonungur safnaði her saman og herjaði á þá. Jarl segir og að Ólafur Noregskonungur hafði menn þangað sent þeirra erinda að hann vill biðja Ingigerðar dóttur hans.

En er jarl hætti að tala þá stóð upp Svíakonungur. Hann svarar þunglega um sættina en veitti jarli átölur þungar og stórar um dirfð þá er hann hafði gert grið og frið við hinn digra mann og lagt við hann vináttu, taldi hann sannan að landráðum við sig, kvað það maklegt að Rögnvaldur væri rekinn úr ríkinu og segir að allt slíkt hlaut hann af áeggjan Ingibjargar konu sinnar og kvað það verið hafa hið ósnjallasta ráð er hann skyldi fengið hafa að girndum slíkrar konu. Hann talaði langt og hart og sneri þá enn tölunni á hendur Ólafi digra.

En er hann settist niður þá var fyrst hljótt. Þá stóð upp Þorgnýr. En er hann stóð upp þá stóðu upp allir bændur þeir er áður höfðu setið og þustu að allir þeir er í öðrum stöðum höfðu verið og vildu hlýða til hvað Þorgnýr mælti. Var þá fyrst gnýr mikill af fjölmenni og vopnum.

En er hljóð fékkst þá mælti Þorgnýr: „Annan veg er nú skaplyndi Svíakonunga en fyrr hefir verið. Þorgnýr föðurfaðir minn mundi Eirík Uppsalakonung Emundarson og sagði það frá honum að meðan hann var á léttasta aldri að hann hafði hvert sumar leiðangur úti og fór til ýmissa landa og lagði undir sig Finnland og Kirjálaland, Eistland og Kúrland og víða um Austurlönd. Og mun enn sjá þær jarðborgir og önnur stórvirki þau er hann gerði og var hann ekki svo mikillátur að eigi hlýddi hann mönnum ef skylt áttu við hann að ræða. Þorgnýr faðir minn var með Birni konungi langa ævi. Var honum hans siður kunnigur. Stóð um ævi Bjarnar hans ríki með styrk miklum en engum þurrð. Var hann dæll sínum vinum. Eg má muna Eirík konung hinn sigursæla og var eg með honum í mörgum herförum. Jók hann ríki Svía en varði harðfenglega. Var oss gott við hann ráðum að koma. En konungur þessi er nú er lætur engi mann þora að mæla við sig nema það einu er hann vill vera láta og hefir hann þar við allt kapp en lætur skattlönd sín undan sér ganga af eljanleysi og þrekleysi. Hann girnist þess að halda Noregsveldi undir sig er engi Svíakonungur hefir það fyrr ágirnst og gerir það mörgum manni óró. Nú er það vilji vor búandanna að þú gerir sætt við Ólaf digra Noregskonung og giftir honum dóttur þína Ingigerði. En ef þú vilt vinna aftur undir þig ríki þau í Austurvegi er frændur þínir og foreldri hafa þar átt þá viljum vér allir fylgja þér þar til. Með því að þú vilt eigi hafa það er vér mælum þá munum vér veita þér atgöngu og drepa þig og þola þér eigi ófrið og ólög. Hafa svo gert hinir fyrri foreldrar vorir. Þeir steyptu fimm konungum í eina keldu á Múlaþingi er áður höfðu upp fyllst ofmetnaðar sem þú við oss. Seg nú skjótt hvorn kost þú vilt upp taka.“

Þá gerði lýðurinn þegar vopnabrak og gný mikinn.

Konungurinn stendur þá upp og mælti, segir að allt vill hann vera láta sem bændur vilja, segir að svo hafa gert allir Svíakonungar að láta bændur ráða með sér öllu því er þeir vildu. Staðnaði þá kurr búandanna.

En þá töluðu höfðingjar, konungur og jarl og Þorgnýr, og gera þá frið og sátt af hendi Svíakonungs eftir því sem Noregskonungur hefir áður orð til send. Var á því þingi það ráðið að Ingigerður dóttir Ólafs konungs skyldi vera gift Ólafi konungi Haraldssyni. Seldi konungur jarli í hendur festar hennar og fékk honum í hendur allt sitt umboð um þann ráðahag og skildust þeir á þinginu að svo loknum málum.

En er jarl fór heim þá hittust þau Ingigerður konungsdóttir og töluðu sín í milli um þetta mál. Hún sendi Ólafi konungi slæður af pelli og gullsaumaðar mjög og silkiræmur.

Fór jarl aftur í Gautland og Björn með honum. Björn dvaldist þar litla stund og fór hann þá aftur til Noregs með föruneyti sínu. Og er hann hitti Ólaf konung og segir honum erindislok þau sem voru þá þakkaði konungur honum vel ferðina og segir sem var að Björn hafði gæfu til borið að koma fram erindinu í ófriði þessum.