Heimskringla/Ólafs saga helga/83

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur kom til Túnsbergs fyrir páska og dvaldist þar mjög lengi um vorið. Þar kom þá til bæjarins mart kaupskipa, bæði Saxar og Danir og austan úr Vík og norðan úr landi. Var þar allmikið fjölmenni. Þá var ár mikið og drykkjur miklar.

Það barst að á einu kveldi að Hrærekur konungur var kominn til herbergis og heldur síðla og hafði mjög drukkið og var þá allkátur. Þá kom þar Finnur litli með mjaðarbyttu og var það grasaður mjöður og hinn sterkasti. Þá lét Hrærekur gefa að drekka öllum þeim er inni voru allt til þess er hver sofnaði í sínu rúmi. Finnur var þá í brott genginn. Ljós brann í herberginu. Þá vakti Hrærekur upp menn þá er vanir voru að fylgja honum og segir að hann vill ganga til garðs. Þeir höfðu skriðljós með sér en niðamyrkur var úti. Mikið salerni var í garðinum og stóð á stöfum en rið upp að ganga til duranna.

En er þeir Hrærekur sátu í garðinum þá heyrðu þeir að maður mælti: „Högg þú fjandann.“

Þá heyrðu þeir brest og dett sem nokkuð félli.

Hrærekur konungur mælti: „Fulldrukkið munu þeir hafa er þar eigast við. Farið til skjótt og skiljið þá.“

Þeir bjuggust skyndilega og hljópu út en er þeir komu á riðið þá var sá höggvinn fyrr er síðar gekk og drepnir þó báðir. Þar voru komnir menn Hræreks konungs, Sigurður hít er verið hafði merkismaður hans og þeir tólf saman. Þar var þá Finnur litli. Þeir drógu líkin upp milli húsanna en tóku konunginn og höfðu með sér, hljópu þá á skútu er þeir áttu og reru í brott.

Sighvatur skáld svaf í herbergi Ólafs konungs. Hann stóð upp um nóttina og skósveinn hans með honum og gengu út til hins mikla salernis. En er þeir skyldu aftur ganga og ofan fyrir riðið þá skriðnaði Sighvatur og féll á kné og stakk niður höndunum og var þar vott undir.

Hann mælti: „Það hygg eg að nú í kveld muni konungurinn hafa mörgum oss fengið karfafótinn“, og hló að.

En er þeir komu í herbergið þar sem ljós brann þá spurði skósveinninn: „Hefir þú skeint þig, eða hví ertu í blóði einu allur?“

Hann svarar: „Ekki em eg skeindur en þó mun þetta tíðindum gegna.“

Hann vakti þá Þórð Fólason merkismann, rekkjufélaga sinn, og gengu þeir út og höfðu með sér skriðljós og fundu brátt blóðið. Þá leituðu þeir og fundu brátt líkin og báru á kennsl. Þeir sáu og að þar lá tréstobbi mikill og í skýlihögg mikil og spurðist það síðan að það hafði gert verið til ólíkinda að teygja þá út er drepnir voru. Þeir Sighvatur mæltu sín í milli að nauðsyn væri til að konungur vissi þessi tíðindi sem bráðast. Þeir sendu sveininn þegar til herbergis þess er Hrærekur konungur hafði verið. Þar sváfu menn allir en konungur var í brottu. Hann vakti þá menn er þar voru inni og sagði tíðindin. Stóðu menn upp og fóru þegar þannug í garðinn sem líkin voru. En þó að nauðsyn þætti til að konungur vissi sem fyrst þessi tíðindi þá þorði engi að vekja hann.

Þá mælti Sighvatur til Þórðar: „Hvort viltu heldur lagsmaður vekja konunginn eða segja honum tíðindin?“

Þórður svarar: „Fyrir engan mun þori eg að vekja hann en segja mun eg honum tíðindin.“

Þá mælti Sighvatur: „Mikið er enn eftir næturinnar og kann vera áður dagur sé að Hrærekur hafi fengið sér það fylgsni að hann verði síðan ekki auðfundinn en þeir munu enn skammt brott komnir því að líkin voru vörm. Skal oss aldregi henda sá skömm að vér látum eigi konunginn vita þessi svik. Gakk þú Þórður upp í herbergið og bíð mín þar.“

Þá gekk Sighvatur til kirkju og vakti klokkarann og bað hann hringja fyrir sál hirðmanna konungs og nefndi mennina, þá er vegnir voru. Klokkarinn gerir sem hann bað.

En við hringingina vaknaði konungur og settist upp. Hann spurði hvort þá væri óttusöngsmál.

Þórður svarar: „Verri efni eru í. Tíðindi mikil eru orðin. Hrærekur konungur er á brott horfinn en drepnir hirðmenn yðrir tveir.“

Þá spurði konungur eftir atburðum þeim er þar höfðu orðið. Þórður segir honum slíkt er hann vissi. Þá stóð konungur upp og lét blása til hirðstefnu.

En er liðið kom saman þá nefndi konungur menn til að fara alla vega frá bænum að leita Hræreks á sæ og landi. Þórir langi tók skútu og fór með þrjá tigu manna og er lýsti sáu þeir skútur tvær litlar fara fyrir þeim. En er þeir sáust reru hvorir sem mest máttu. Þar var Hrærekur konungur og hafði þrjá tigu manna. En er saman dró með þeim þá sneru þeir Hrærekur að landi og hljópu þar upp á land allir nema konungur settist upp í lyftingina. Hann mælti, bað þá vel fara og heila hittast. Því næst reru þeir Þórir að landi. Þá skaut Finnur litli öru og kom sú á Þóri miðjan og fékk hann bana, en þeir Sigurður hljópu allir í skóginn, en menn Þóris tóku lík hans og svo Hrærek konung og fluttu út til Túnsbergs.

Ólafur konungur tók þá við haldi Hræreks konungs. Hann lét þá vandlega gæta hans og galt mikinn varhuga við svikum hans, fékk til menn nótt og dag að gæta hans. Hrærekur konungur var þá hinn kátasti og fann engi maður á honum að eigi líkaði honum allt sem best.