Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/12

Úr Wikiheimild

Eysteinn Upplendingakonungur, er sumir kalla hinn ríkja en sumir hinn illa, hann herjaði í Þrándheim og lagði undir sig Eynafylki og Sparbyggjafylki og setti þar yfir son sinn er hét ... En Þrændir drápu hann.

Eysteinn konungur fór annað sinn herför í Þrándheim og herjaði þá víða og lagði undir sig. Þá bauð hann Þrændum hvort þeir vildu heldur hafa að konungi þræl hans er hét Þórir faxi eða hund er Saur hét en þeir kuru hundinn því að þeir þóttust þá mundu heldur sjálfráða. Þeir létu síða í hundinn þriggja manna vit og gó hann til tveggja orða en mælti hið þriðja. Helsi var honum gert og viðjar af silfri og gulli. En þegar er saurugt var báru hirðmenn hann á herðum sér. Hásæti var honum búið og hann sat á haugi sem konungar og bjó í Eyjunni innri og hafði aðsetu þar sem heitir Saurshaugur. Það er sagt að honum varð að bana að vargar lögðust á hjörð hans en hirðmenn eggjuðu hann að verja fé sitt. Hann gekk af hauginum og fór þangað til sem vargarnir voru en þeir rifu hann þegar í sundur.

Mörg undur önnur gerði Eysteinn konungur við Þrændi. Af þeim hernaði og ófriði flýðu margir höfðingjar og mart fólk flýði óðul sín.

Ketill jamti sonur Önundar jarls úr Sparabúi fór austur um Kjöl og mikill mannfjöldi með honum og höfðu búferli sín með sér. Þeir ruddu markir og byggðu þar stór héruð. Það var síðan kallað Jamtaland.

Sonarsonur Ketils var Þórir helsingur. Hann fór fyrir víga sakir af Jamtalandi og austur yfir markir þær er þar verða og byggði þar og sótti þannug fjöldi manns með honum, og það er kallað Helsingjaland. Gengur það allt austur til sjávar. Helsingjaland byggðu Svíar allt hið eystra með hafinu.

En er Haraldur konungur hinn hárfagri ruddi ríki fyrir sér þá stökk enn fyrir honum fjöldi manns úr landi, Þrændir og Naumdælir, og gerðust þá enn byggðir austur um Jamtaland og sumir fóru allt í Helsingjaland. Helsingjar höfðu kaupferðir sínar til Svíþjóðar og voru þannug lýðskyldir að öllu en Jamtur voru mjög alls í millum og gaf engi að því gaum fyrr en Hákon setti frið og kaupferðir til Jamtalands og vingaðist þar við ríkismenn. Þeir sóttu síðan austan á hans fund og játuðu honum hlýðni sinni og skattgjöfum og gerðust hans þegnar því að þeir spurðu gott til hans. Vildu þeir heldur þýðast undir hans konungdóm en undir Svíakonung því að þeir voru af Norðmanna ætt komnir en hann setti þeim lög og landsrétt. Svo gerðu og allir Helsingjar þeir er æskaðir voru um Kjöl norðan.