Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/5

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Hákonar saga herðibreiðs
Höfundur: Snorri Sturluson
5. Frá ráðagerðum


En er Ingi konungur spurði það þá fór hann austur eftir þeim. Þeir hittust austur í Elfi. Ingi konungur lagði upp í ána eftir hinni nyrðri kvísl og gerði njósn fyrir sér um þá Hákon. En Ingi konungur lagði að landi út við Hísing og beið þar njósnarinnar.

Og er njósnarmenn komu aftur þá gengu þeir til konungs og sögðu að þeir hefðu séð lið Hákonar konungs og alla skipan þeirra, segja að þeir lágu uppi við stikin og höfðu tengt skutstafna sína upp í stikin: „Þeir hafa tvo austurfararknörru og hafa þá lagt yst skipanna.“

Á knörrunum voru húnkastalar og svo frammi í stafni á báðum. En er þetta spurði konungur, hvern viðbúnað þeir höfðu, þá lét hann blása til húsþings öllu liðinu. En er þings var kvatt og sett þá leitar konungur ráðs við lið sitt og kveður Gregoríus Dagsson og Erling skakka mág sinn og aðra lenda menn og skipstjórnarmenn og segir allan umbúnað þeirra Hákonar manna.

Gregoríus svaraði fyrst og birti sinn vilja, segir svo: „Fundir vorir Hákonar hafa að borist nokkurum sinnum og hafa þeir haft oftast meira lið og fengið þó minna hlut í vorum skiptum. En nú höfum vér miklu meira lið og mun það nú þykja líklegt þeim mönnum, er fyrir skömmu hafa misst fyrir þeim göfgra frænda sinna, að hér muni vel bera til um hefnd því að þeir hafa lengi nú áður rekist undan oss í sumar. Höfum vér það oft mælt ef þeir biðu vor, svo sem nú er sagt að vera muni, að vér mundum hætta til fundar við þá. Nú er það að segja frá mínu skaplyndi að eg vil leggja til orustu við þá ef það er eigi í mót konungsvilja því að eg ætla enn sem fyrr hefir verið að þeir muni fyrir verða láta, ef vér leggjum skelegglega að. Mun eg þar til leggja er öðrum þykir torveldlegast.“

Að ræðu Gregoríusar varð mikill rómur og létust allir búnir að leggja til orustu við þá Hákon. Var þá róið öllum skipunum upp eftir ánni til þess er hvorir sáu aðra. Þá viku þeir Ingi konungur af árstrauminum út undir eyna. Átti konungur þá tal við stýrimenn alla og bað þá skipa til atlögu og kvaddi þá að Erling skakka, sagði sem satt var að engi var í því liði vitrari maður og kænni í orustu þó að sumir væru enn meiri ákafamenn. Veik konungur þá enn ræðunni til fleiri lendra manna, nefndi suma á nafn en lauk svo ræðu sinni að hann bað það hvern til leggja er hann sá að ráði gegndi en síðan alla saman verða á eitt sátta.