Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/19

Úr Wikiheimild

Tíðindi þau spurðust sunnan úr landi að Hörðar og Rygir, Egðir og Þilir söfnuðust saman og gerðu uppreist, bæði að skipum og vopnum og fjölmenni. Voru þeir upphafsmenn Eiríkur Hörðalandskonungur, Súlki konungur af Rogalandi og Sóti jarl bróðir hans, Kjötvi hinn auðgi konungur af Ögðum og Þórir haklangur sonur hans, af Þelamörk bræður tveir, Hróaldur hryggur og Haddur hinn harði.

En er Haraldur konungur varð þessa tíðinda vís þá dró hann her saman og skaut skipum á vatn, bjóst síðan með liðið og fer með landi suður og hafði mart manna úr hverju fylki. En er hann kemur suður um Stað þá spyr það Eiríkur konungur. Hafði hann þá og saman komið því liði er honum var von. Fer hann þá suður í móti því liði er hann vissi að austan mundi koma til fulltings við hann. Mættist þá herinn allur fyrir norðan Jaðar og leggja þá inn til Hafursfjarðar.

Þar lá þá fyrir Haraldur konungur með her sinn. Tekst þar þegar orusta mikil, var bæði hörð og löng. En að lyktum var það að Haraldur konungur hafði sigur en þar féllu þeir Eiríkur konungur og Súlki konungur og Sóti jarl bróðir hans. Þórir haklangur hafði lagt skip sitt í móti skipi Haralds konungs. Og var Þórir berserkur mikill. Var þar allhörð atsókn áður Þórir haklangur féll. Var þá hroðið allt skip hans. Þá flýði Kjötvi konungur og í hólma nokkurn þar er vígi var mikið. Síðan flýði allt lið þeirra, sumt á skipum en sumt hljóp á land upp og svo hið efra suður um Jaðar.

Svo segir Hornklofi:

Heyrðir þú í Hafrsfirði,
hve hisig barðist
konungr hinn kynstóri
við Kjötva hinn auðlagða.
Knerrir komu austan,
kapps um lystir,
með gínöndum höfðum
og gröfnum tinglum.
Hlaðnir voru þeir hölda
og hvítra skjalda,
vigra vestrænna
og valskra sverða.
Grenjuðu berserkir,
Gunnr var þeim á sinnum,
emjuðu úlfhéðnar
og ísörn glumdu.
Freistuðu hins framráða,
er þeim flýja kenndi,
allvaldr Austmanna,
er býr að Útsteini.
Stöðum nökkva brá stillir
er honum var styrjar væni.
Hlömmun var á hlífum
áðr Haklangr félli.
Leiddist þá fyr Lúfu
landi að halda
hilmi hinum hálsdigra,
hólm lét sér að skjaldi.
Slógust undir sessþiljur,
er sárir voru,
létu upp stjölu stúpa,
stungu í kjöl höfðum.
Á baki létu blíkja,
barðir voru grjóti,
Sváfnis salnæfrar
seggir hyggjandi.
Æstust austkylfur
og um Jaðar hljópu
heim úr Hafursfirði
og hugðu á mjöðdrykkju.