Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/25

Úr Wikiheimild

Rögnvaldur Mærajarl var hinn mesti ástvin Haralds konungs og konungur virti hann mikils. Rögnvaldur átti Hildi dóttur Hrólfs nefju. Synir þeirra voru þeir Hrólfur og Þórir. Rögnvaldur jarl átti og frillusonu. Hét einn Hallaður, annar Einar, hinn þriðji Hrollaugur. Þeir voru rosknir þá er hinir skírbornu bræður þeirra voru börn.

Hrólfur var víkingur mikill. Hann var svo mikill maður vexti að engi hestur mátti bera hann og gekk hann hvargi sem hann fór. Hann var kallaður Göngu-Hrólfur. Hann herjaði mjög í Austurvegu. Á einu sumri er hann kom úr víking austan í Víkina þá hjó hann þar strandhögg. Haraldur konungur var í Víkinni. Hann varð mjög reiður þá er hann spurði þetta því að hann hafði mikið bann á lagt að ræna innanlands. Konungur lýsti því á þingi að hann gerði Hrólf útlaga af Noregi.

En er það spurði Hildur móðir Hrólfs þá fór hún á fund konungs og bað friðar Hrólfi. Konungur var svo reiður að henni týði ekki að biðja.

Þá kvað Hildur þetta:

Hafnið Nefju nafna,
nú rekið gand úr landi
horskan hölda barma.
Hví bellið því, stillir?
Illt er við úlf að ylfast
Yggs valbríkar slíkan,
muna við hilmis hjarðir
hægr, ef hann renn til skógar.

Göngu-Hrólfur fór síðan vestur um haf í Suðureyjar og þaðan fór hann vestur í Valland og herjaði þar og eignaðist jarlsríki mikið og byggði þar mjög Norðmönnum og er þar síðan kallað Norðmandí. Af Hrólfs ætt eru komnir jarlar í Norðmandí. Sonur Göngu-Hrólfs var Vilhjálmur, faðir Ríkarðar, föður annars Ríkarðar, föður Roðberts löngumspaða, föður Vilhjálms bastarðar Englakonungs. Frá honum eru síðan komnir Englakonungar allir.

Ragnhildur drottning ríka lifði síðan þrjá vetur er hún kom í Noreg. En eftir dauða hennar fór Eiríkur sonur þeirra Haralds konungs til fósturs í Fjörðu til Þóris hersis Hróaldssonar og fæddist hann þar upp.