Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/32

Úr Wikiheimild

Hálfdan háleggur kom vestur til Orkneyja og mjög á óvart og flýði Einar jarl þegar úr eyjunum og kom aftur þegar sama haust og kom þá óvart Hálfdani. Þeir hittust og varð skömm orusta og flýði Hálfdan og var það við nótt sjálfa. Lágu þeir Einar tjaldalausir um nóttina en um morguninn er lýsa tók þá leituðu þeir flóttamanna um eyjarnar og var hver drepinn þar er staðinn varð.

Þá mælti Einar jarl: „Eigi veit eg,“ segir hann, „hvort eg sé út á Rínansey mann eða fugl. Stundum hefst upp en stundum leggst niður.“

Síðan fóru þeir þannug til og fundu þar Hálfdan hálegg og tóku hann höndum.

Einar jarl kvað vísu þessa um aftaninn áður hann lagði til orustu:

Sékat eg Hrólfs úr hendi
né Hrollaugi fljúga
dör á dæla mengi.
Dugir oss föður hefna.
En í kveld, þar er knýjum,
of kerstraumi, rómu,
þegjandi sitr þetta
Þórir jarl á Mæri.

Þá gekk Einar jarl til Hálfdanar. Hann reist örn á baki honum við þeima hætti að hann lagði sverði á hol við hrygginn og reist rifin öll ofan á lendar, dró þar út lungun. Var það bani Hálfdanar.

Þá kvað Einar:

Rekið hefi eg Rögnvalds dauða,
en réðu því nornir,
nú er fólkstuðill fallinn,
að fjórðungi mínum.
Verpið, snarpir sveinar,
því að sigri vér ráðum,
skatt vel eg honum harðan,
að Háfætu grjóti.

Síðan settist Einar jarl að Orkneyjum sem fyrr hafði hann haft. En er tíðindi þessi spyrjast í Noreg þá kunnu þessu stórilla bræður Hálfdanar og töldu hefnda fyrir vert og margir sönnuðu það aðrir.

En er Einar jarl spyr þetta þá kvað hann:

Eru til míns fjörs margir
menn, of sannar deildir,
úr ýmissum áttum
ósmábornir gjarnir.
En þó vita þeygi
þeir áðr mig hafi felldan,
hver ilþorna arnar
undir hlýtr að standa.