Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/39
Hákon Grjótgarðsson Hlaðajarl hafði alla yfirsókn í Þrándheimi þá er Haraldur konungur var annars staðar í landi og hafði Hákon mestan metnað í Þrændalögum af konungi.
Eftir fall Hákonar tók Sigurður sonur hans ríki og gerðist jarl í Þrándheimi. Hann hafði aðsetu á Hlöðum. Með honum fæddust upp synir Haralds konungs, Hálfdan svarti og Sigröður, en áður voru þeir undir hendi Hákoni föður hans. Þeir voru mjög jafnaldrar synir Haralds og Sigurður. Sigurður jarl fékk Bergljótar dóttur Þóris jarls þegjanda. Móðir hennar var Ólöf árbót dóttir Haralds hárfagra. Sigurður jarl var allra manna vitrastur.
En er Haraldur konungur tók að eldast þá settist hann oftlega að stórbúum er hann átti á Hörðalandi, á Alreksstöðum eða Sæheimi eða Fitjum, og á Rogalandi, að Útsteini og á Ögvaldsnesi í Körmt.
Þá er Haraldur konungur var nær sjöræðum gat hann son við konu þeirri er Þóra er nefnd Morsturstöng. Hún var æskuð úr Morstur. Hún átti góða frændur. Hún var í frændsemistölu við Hörða-Kára. Hún var kvinna vænst og hin fríðasta. Hún var kölluð konungsambátt. Voru þá margir þeir konungi lýðskyldir er vel voru ættbornir, bæði karlar og konur. Sá var siður um göfugra manna börn að vanda menn mjög til að ausa vatni eða gefa nafn.
En er að þeirri stefnu kom er Þóru var von að hún mundi barn ala þá vildi hún fara á fund Haralds konungs. Hann var þá norður á Sæheimi en hún var í Morstur. Hún fór þá norður á skipi Sigurðar jarls. Þau lágu um nóttina við land. Þar ól Þóra barn uppi á hellunni við bryggjusporð. Það var sveinbarn.
Sigurður jarl jós sveininn vatni og kallaði Hákon eftir föður sínum Hákoni Hlaðajarli. Sá sveinn var snemma fríður og mikill vexti og mjög líkur föður sínum. Haraldur konungur lét sveininn fylgja móður sinni og voru þau að konungsbúum meðan sveinninn var ungur.