Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/6
Útlit
Haraldur konungur setti þann rétt, allt þar er hann vann ríki undir sig, að hann eignaðist óðul öll og lét alla búendur gjalda sér landskyldir, bæði ríka og óríka. Hann setti jarl í hverju fylki, þann er dæma skyldi lög og landsrétt og heimta sakeyri og landskyldir og skyldi jarl hafa þriðjung skatta og skylda til borðs sér og kostnaðar. Jarl hver skyldi hafa undir sér fjóra hersa eða fleiri og skyldi hver þeirra hafa tuttugu marka veislu. Jarl hver skyldi fá konungi í her sex tigu hermanna en hersir hver tuttugu menn. En svo mikið hafði Haraldur konungur aukið álög og landskyldir að jarlar hans höfðu meira ríki en konungar höfðu fyrrum.
En er þetta spurðist um Þrándheim þá sóttu til Haralds konungs margir ríkismenn og gerðust hans menn.