Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/2

Úr Wikiheimild

Snið:Header

Eftir um vorið fengu þeir sér skipan og fóru um sumarið austur í Garðaríki á fund Jarisleifs konungs og voru þar um veturinn.

Svo segir Bölverkur:

Mildingr, straukstu um mækis
munn er lést af gunni.
Holds vannst hrafn um fylldan
hrás. Þaut vargr í ási.
En gramr, né eg frá fremra
friðskerði þér verða,
austr varstu ár hið næsta,
örðuglyndr, í Görðum.

Jarisleifur konungur tók vel við þeim Haraldi. Gerðist Haraldur þá höfðingi yfir landvarnarmönnum konungs, og annar Eilífur, sonur Rögnvalds jarls.

Svo segir Þjóðólfur:

Eitt höfðust at,
Eilífr þar er sat,
höfðingjar tveir.
Hamalt fylktu þeir.
Austr-Vindum ók
í öngvan krók.
Vara Læsum léttr
liðsmanna réttr.

Haraldur dvaldist í Garðaríki nokkura vetur og fór víða um Austurveg. Síðan byrjaði hann ferð sína út í Grikkland og hafði mikla sveit manna. Þá hélt hann til Miklagarðs.

Svo segir Bölverkur:

Hart kníði svöl svartan
snekkju brand fyr landi
skúr, en skrautla báru
skeiður brynjaðar reiði.
Mætr hilmir sá málma
Miklagarðs fyr barði.
Mörg skriðu beit að borgar
barmfögr hám armi.