Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/57

Úr Wikiheimild

Vestur á Vallandi var einn maður vanheill svo að hann var krypplingur, gekk á knjám og á knúm. Hann var staddur um dag úti á veg og var þá sofnaður. Það dreymdi hann að maður kom til hans göfuglegur og spurði hvert hann gerðist, en hann nefndi til einhvern bæ.

En hinn göfgi maður mælti við hann: „Farðu til Ólafskirkju þeirrar er í Lundúnum stendur og muntu þá heill verða.“

En síðan vaknaði hann en fór þá á leit Ólafskirkju. En um síðir þá kom hann til Lundúnabryggju og spurði þar borgarmenn ef þeir kynnu segja honum hvar Ólafskirkja væri en þeir svöruðu og kváðu miklu fleiri kirkjur vera þar heldur en þeir vissu hverjum manni hver þeirra væri helguð. En litlu síðar þá gekk þar maður að honum og spurði hvert hann gerðist. Hann sagði honum.

En sá mælti síðan: „Við skulum fara báðir saman til kirkju Ólafs og kann eg leið þangað.“

Síðan fóru þeir yfir bryggjuna og fóru það stræti er til Ólafskirkju lá. En er þeir komu til kirkjugarðshliðsins þá sté sá yfir þreskuld þann er í hliðinu var en krypplingurinn veltist þar inn yfir og reis þegar heill upp. En þá er hann sást um þá var horfinn förunautur hans.