Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/59

Úr Wikiheimild
Ótitlað


Haraldur konungur sat um veturinn í Niðarósi. Hann lét reisa skip um veturinn út á Eyrum. Það var bússuskip. Skip það var gert eftir vexti Orms hins langa og vandað að öllu sem mest. Var drekahöfuð á frammi en aftur krókur og voru svírarnir allir gulli búnir. Það var hálffertugt að rúmatali og mikið að því og var hið fríðasta. Lét konungur allan búnað vanda til skipsins, bæði segl og reipareiða, akkeri og strengi.

Haraldur konungur gerði boð um veturinn suður til Danmerkur Sveini konungi að hann skyldi eftir um vorið koma sunnan til Elfar til móts við sig og berjast svo að þeir skiptu þá löndum „og hafi annar hvor bæði konungsríkin.“