Heimskringla/Haralds saga gráfeldar/8

Úr Wikiheimild

Hákon jarl fór einn vetur til Upplanda og á nokkura gisting og lagðist með konu einni og var sú lítillar ættar. En þá er þaðan liðu stundir gekk sú kona með barni. En er barn það var alið var það sveinn og var vatni ausinn og hét Eiríkur. Móðirin flutti sveininn til Hákonar jarls og segir að hann var faðirinn.

Jarl lét sveininn upp fæðast með manni þeim er kallaður var Þorleifur hinn spaki. Hann bjó uppi í Meðaldal. Hann var ríkur maður og auðigur og vinur mikill jarls. Var Eiríkur brátt mannvænn, hinn fríðasti sýnum, mikill og sterkur snemma. Jarl lét fátt um til hans.

Hákon jarl var og allra manna fríðastur sýnum, ekki hár maður, vel sterkur og íþróttamaður mikill, spakur að viti og hermaður hinn mesti.