Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/10

Úr Wikiheimild

Í þann tíma stóð Noregsveldi með blóma miklum. Var bóndafólk auðigt og ríkt og óvant ófrelsi eða ófriði flokkanna. Gerðist brátt mikið orðlag og stórar frásagnir þá er rænt var. Víkverjar voru fullkomnir vinir Magnúss konungs og Erlings. Olli því mest vinsæld Inga konungs Haraldssonar því að Víkverjar höfðu með sínum styrk jafnan þjónað undir þann skjöld.

Erlingur lét hafa varðhöld á bænum og vöktu tólf menn hverja nótt.

Erlingur átti jafnan þing við bændur og var þar talað oft um óspektir Sigurðar manna. Og með fortölum Erlings og annarra liðsmanna þá fékkst mikill rómur til þess af bóndum að það væri mikið happaverk að menn létu þann flokk aldrei þrífast.

Árni konungsmágur talaði langt um þetta mál og hart að lyktum. Beiddi hann þess alla menn er á voru þinginu, bæði liðsmenn og bændur og býjarmenn, að menn skyldu gera vopnatak að því að dæma með lögum Sigurð jarl og allan flokk þeirra til fjandans bæði lífs og dauða. En með ákafa lýðsins og óstilling þá játtu allir því. Var þetta ódæmaverk gert og fest svo sem lög voru til að dæma á þingum.

Hróaldur prestur langtala talaði um þetta mál. Hann var maður málsnjallur og kom sú tala mjög í einn stað svo sem áður hafði talað verið.

Erlingur veitti um jólin í Túnsbergi en hann gaf mála þar um kyndilmessu.