Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/12

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Það var á öndverðri föstu er njósn kom Erlingi að Sigurður jarl mundi koma á fund hans og var til hans spurt hér og hvar, stundum nær en stundum firr meir. Erlingur gerði þá njósn frá sér að hann skyldi var verða hvar sem þeir kæmu fram. Hann lét og hvert kveld blása öllu liðinu upp úr býnum og lágu þeir um nætur í safnaði og var allt skipað liðinu í fylkingar. Þá kom Erlingi njósn að þeir Sigurður jarl voru þaðan skammt í brott uppi á Ré.

Erlingur byrjar þá ferðina úr bænum og hafði með sér allt bæjarfólk það er vígt var og vopnað og svo kaupmenn nema tólf menn er eftir voru að gæta býjarins. Hann fór úr býnum Týsdag í annarri viku langaföstu eftir nón og hafði hver maður sér tveggja daga vist, fóru þá um nóttina og varð þeim seint að koma liðinu úr býnum. Um einn hest og einn skjöld voru tveir menn. Þá er skorað var liðið þá var nær þrettán hundruð manna. En er njósn kom í mót þeim var þeim sagt að Sigurður jarl var á Ré á þeim bæ er Hrafnsnes heitir með fimm hundruð manna. Lét þá Erlingur kalla saman liðið og sagði þau tíðindi er hann hafði spurt en allir eggjuðu að þeir skyldu skunda og taka hús á þeim eða berjast þegar um nóttina.

Erlingur talaði og mælti svo: „Það mun líklegt þykja að fundur vor Sigurðar jarls muni brátt að berast. Eru í þeirra flokki og margir aðrir þeir menn er oss mætti minnisamt vera þeirra handaverk er þeir hjuggu niður Inga konung og svo marga aðra vora vini sem seint er tölu á að koma. Gerðu þeir þau verk með fjandakrafti og fjölkynngi og níðingskap því að það stendur hér í lögum vorum og landsrétti að engi maður hefir svo fyrirgert sér að eigi heiti það níðingsverk eða morðvíg er menn drepast um nætur. Hefir þessi flokkur sér leitað þeirra heilla að tilvísan fjölkunnigra manna að þeir skyldu um nætur berjast en eigi undir sólu. Hafa þeir og með þvílíkri framkvæmd þann sigur unnið að stíga yfir höfuð þvílíkum höfðingja sem þeir hafa að jörðu lagt. Nú höfum vér það oftlega sagt og sýnt hvernug af leitt oss sýnist um þeirra hátt er þeir hafa um nætur til bardaga ráðið. Skulum vér fyrir því heldur hafa hinna höfðingja dæmi er oss eru kunnari og betra er eftir að líkja að berjast um ljósa daga og með fylking en stelast eigi um nætur á sofandi menn. Höfum vér lið gott í móti eigi meira her en þeir hafa. Skulum vér bíða dags og lýsingar og haldast saman í fylkingu ef þeir vilja nokkur áhlaup oss veita.“

Eftir það settist niður allt liðið. Tóku sumir í sundur heyhjálma nokkura og gerðu sér af ból, sumir sátu á skjöldum sínum, og biðu svo lýsingar. Svalt var veður og votadrífa.