Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/17

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Sigurður og Markús, þá er þeir höfðu látið skip sín í Elfinni, sáu það að þeir fengu ekki fang á Erlingi. Þá snerust þeir til Upplanda og fóru svo hið efra norður til Þrándheims. Var þeim þar vel fagnað. Var Sigurður þar til konungs tekinn á Eyraþingi. Réðust þar til flokksins margir góðra manna synir.

Réðu þeir þar til skipa og bjuggust skyndilega, fóru er sumraði suður á Mæri og tóku allar konungstekjur hvar sem þeir fóru. Þeir voru í Björgyn lendir menn til landvarnar, Nikulás Sigurðarson, Nökkvi Pálsson og enn fleiri sveitarhöfðingjar, Þórólfur dryllur, Þorbjörn gjaldkeri og margir aðrir. Þeir Markús sigldu norðan og spurðu að Erlings menn höfðu fjölmennt í Björgyn, sigldu þar útleið suður um. Það höfðu menn á máli að það sumar höfðu Markúss menn byr hvar sem þeir vildu fara.