Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/21

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Erlingur skakki hélt síðan til Túnsbergs og dvaldist þar lengi um vorið. En er sumraði hélt hann norður til Björgynjar. Var þar þá allmikið fjölmenni. Þar var þá Stephanus legatus [Stefán erindreki] af Rúmaborg og Eysteinn erkibiskup og aðrir biskupar innlenskir. Þar var og Brandur biskup er þá var vígður til Íslands. Þar var og Jón Loftsson, dótturson Magnúss konungs berfætts. Þá hafði Magnús konungur og aðrir frændur Jóns tekið við frændsemi hans.

Eysteinn erkibiskup og Erlingur skakki voru oft á tali og á einmælum.

Og eitt sinn var það í ræðum þeirra að Erlingur spurði: „Er það með sannindum, herra, er menn segja að þér hafið aukið auralag um sakeyri yðarn við bændur norður í landið?“

Erkibiskup svarar: „Það er víst satt að bændur hafa mér það veitt að auka auralag um sakeyri minn. Hafa þeir það gert að sjálfræði sínu en með engum pyndingum, aukið í því guðs dýrð og auðæfi staðar vors.“

Erlingur segir: „Hvort eru það lög, herra, hins helga Ólafs konungs eða hafið þér tekið nokkuru frekara þetta mál en svo sem ritið er í lögbókinni?“

Erkibiskup segir: „Svo mun hinn heilagi Ólafur konungur lögin hafa sett sem hann fékk þá jáorð og samþykki alþýðu til en ekki finnst það í hans lögum að bannað sé að auka guðs rétt.“

Erlingur segir: „Viljið þér auka yðarn rétt þá munuð þér styrkja vilja oss til þess að vér aukum jafnmiklu konungsréttinn.“

Erkibiskup segir: „Aukið hefur þú nú áður með gnógu nafn og ríki sonar þíns. En ef eg hefi aflaga tekið auralögin af þeim Þrændum þá ætla eg stærra bera hin lagabrotin er sá er konungur yfir landi er eigi er konungssonur. Eru þar hvorki til þess lög né dæmi hér í landi.“

Erlingur segir: „Þá er Magnús var til konungs tekinn yfir Noregsríki var það gert með yðarri vitand og ráði og svo annarra biskupa hér í landi.“

Erkibiskup segir: „Því héstu þá, Erlingur, ef vér samþykktum með þér að Magnús væri til konungs tekinn að þú skyldir styrkja guðs rétt í öllum stöðum með öllum krafti þínum.“

„Játi eg því,“ segir Erlingur, „að eg hefi heitið að halda guðs lög og landsrétt með öllum mínum styrk og konungs. Nú sé eg hér betra ráð til en hvor okkar kenni öðrum brigðmæli. Höldum heldur öll einkamál vor. Styrkið þér Magnús konung til ríkis svo sem þér hafið heitið en eg skal styrkja yðart ríki til allra farsællegra hluta.“

Fór þá öll ræðan mjúklega með þeim.

Þá mælti Erlingur: „Ef Magnús er eigi svo til konungs tekinn sem forn siður er til hér í landi þá megið þér af yðru valdi gefa honum kórónu sem guðs lög eru til, að smyrja konung til veldis. En þótt eg sé eigi konungur eða af konungaætt kominn þá hafa þeir konungar nú verið flestir í voru minni er eigi vissu jafnvel sem eg til laga eða landsréttar. En móðir Magnúss konungs er konungs dóttir og drottningar skilfengin. Magnús er og drottningarsonur og eiginkonusonur. En ef þér viljið gefa honum konungsvígslu þá má engi hann taka síðan af konungdóminum að réttu. Eigi var Vilhjálmur bastarður konungssonur og var hann vígður og kórónaður til konungs yfir Englandi og hefir síðan haldist konungdómur í hans ætt á Englandi og allir verið kórónaðir. Eigi var Sveinn Úlfsson í Danmörk konungssonur og var hann þó þar kórónaður konungur og síðan synir hans og hver eftir annan þeirra frænda kórónaður konungur. Nú er hér í landi erkistóll. Er það mikill vegur og tign lands vors. Aukum vér nú enn með góðum hlutum, höfum konung kórónaðan eigi síður en enskir menn eða Danir.“

Síðan töluðu þeir erkibiskup og Erlingur um þetta mál oftlega og fór allt sáttgjarnlega. Síðan bar erkibiskup þetta mál fyrir legátann og fékk auðveldlega snúið legátanum til samþykkis við sig. Átti erkibiskup þá stefnu við ljóðbiskupa og aðra kennimenn og bar þetta mál fyrir þá en allir svöruðu á eina lund, sögðu það sitt ráð sem erkibiskup vildi vera láta og fýstu allir að vígsla færi fram þegar þeir fundu að erkibiskup vildi svo vera láta. Var það þá allra dómur.