Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/25

Úr Wikiheimild

Vetur þann fóru menn nokkurir danskir hið efra um land og sögðu það sem margtítt er að þeir skyldu til hins helga Ólafs konungs til vöku. En er þeir komu til Þrándheims þá hittu þeir þar marga ríkismenn, segja þá erindi sín að Danakonungur hafði sent þá að leita sér vináttu til þeirra og viðtöku, ef hann kemur í land, en hann heitir að gefa þeim bæði ríki og fé. Þessari orðsending fylgdi bréf og innsigli Danakonungs og það með að þeir bændurnir skyldu senda í mót sín bréf og innsigli. Þeir gerðu svo og urpust flestir vel undir orðsending Danakonungs. Sendimenn fóru aftur austur er á leið langaföstu.

Erlingur sat í Björgyn. En er voraði sögðu vinir Erlings honum pata þann er þeir höfðu spurt af byrðingsmönnum er komnir voru norðan úr Þrándheimi, að Þrændir væru berir í fjandskap við hann og þeir lýstu því á þingum sínum, ef Erlingur kæmi í Þrándheim, að hann skyldi aldregi koma út um Agðanes með fjörvi. Erlingur sagði að slíkt væri upplostning og hégómi. Erlingur lýsti því að hann mundi fara suður á Unarheim til gagndagaþings og lét búa snekkju, tvítugsessu, og skútu, fimmtánsessu, og enn vistabyrðing. En er skipin voru búin þá lögðust á sunnanveður hvöss. Týsdag í gagndögum lét Erlingur blása liði sínu til skipa en menn voru trauðir úr býnum og þótti illt að róa andróðann. Erlingur lagði norður í Biskupshöfn.

Þá mælti Erlingur: „Illa kurrið þér að róa andróðann, takið nú og reisið viðurnar, dragið síðan seglin og látum ganga norður skipin.“

Þeir gerðu svo, sigldu norður um daginn og um nóttina. Óðinsdag að kveldi sigldu þeir inn um Agðanes. Varð þá fyrir þeim samflot mikið, byrðingar og róðrarferjur og skútur, það var vökulið, fóru inn til býjar, sumir fyrir þeim en sumir eftir. Gáfu býjarmenn engi gaum að fyrir þá sök um langskipasigling.