Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/4

Úr Wikiheimild

Erlingur skakki tók skip þau öll í Túnsbergi er Hákon konungur átti. Þar fékk hann Bækisúðina er Ingi konungur hafði átt. Erlingur fór síðan og lagði undir Magnús alla Víkina og svo norður allt sem hann fór og sat um veturinn í Björgyn. Þá lét Erlingur drepa Ingibjörn sipil, lendan mann Hákonar konungs, norður í Fjörðum.

Hákon konungur sat í Þrándheimi um veturinn en eftir um vorið bauð hann út leiðangri og bjóst að fara suður til móts við Erling. Þar voru þá með honum Sigurður jarl, Jón Sveinsson, Eindriði ungi og Önundur Símonarson, Filippus Pétursson, Filippus Gyrðarson, Rögnvaldur kunta, Sigurður kápa, Sigurður hjúpa, Frírekur kæna, Áskell á Forlandi, Þorbjörn sonur Gunnars gjaldkera, Strað-Bjarni.