Heimskringla/Magnúss saga Erlingssonar/42

Úr Wikiheimild

Magnús konungur fór í Vík austur um haustið með sumu liðinu og Ormur konungsbróðir. Erlingur jarl var eftir í Björgyn og hafði þar mikið lið og skyldi gegna Birkibeinum ef þeir færu hið ytra. Magnús konungur settist í Túnsbergi og þeir Ormur báðir. Veitti konungur þar um jólin.

Magnús konungur spurði til Birkibeina uppi á Ré. Síðan fór konungur úr býnum með liði sínu og þeir Ormur og komu á Ré. Snjár var mikill og veður furðu kalt. En er þeir komu á bæinn þá gengu þeir úr túninu á veginn og fyrir utan við garðinn fylktu þeir og tróðu sér gadd. Þeir höfðu eigi öll fimmtán hundruð manna. Birkibeinar voru á öðrum bænum en sumt lið þeirra hér og hvar í húsum. En er þeir urðu varir við her Magnúss konungs heimtust þeir saman og skutu á fylking. En er þeir sáu lið Magnúss konungs þá þótti þeim sem var að þeirra lið var meira, réðu þegar til bardaga.

En er þeir sóttu fram veginn þá máttu fáir senn fram fara en þeir er út hljópu af veginum fengu snjá svo mikinn að þeir fengu varla fram komist og brást þá fylking þeirra en þeir féllu er fyrstir gengu fram brautina. Var þá niður höggvið merkið en þeir er þar voru næst opuðu en sumir slógust á flótta. Magnúss konungs menn fylgdu þeim og drápu hvern að öðrum er þeir náðu. Birkibeinar komu þá ekki fylking á og urðu berir fyrir vopnum og féll þá mart og mart flýði. Var þá sem oft kann verða, þótt menn séu fræknir og vopndjarfir, ef slög stór fá og komi á flótta, að flestir verða illir afturhvarfs. Tók þá að flýja meginlið Birkibeina en fjöldi féll því að Magnúss konungs menn drápu allt það er þeir máttu og voru engum manni grið gefin, þeim er þeir náðu, en flóttinn dreifðist víðs vegar.

Eysteinn konungur kom á flótta. Hann hljóp í hús nokkuð og bað sér griða og þess að bóndi skyldi fela hann. En bóndi drap hann, fór síðan á fund Magnúss konungs og fann hann á Hrafnsnesi. Var konungur inni í stofu og bakaði sig við eld og var þar mart manna. Síðan fóru menn og fluttu þannug líkið, báru inn í stofuna. Bað konungur menn þá til ganga og kenna líkið.

Maður einn sat í krókpallinum og var það Birkibeinn og hafði engi maður gaum gefið að honum. En er hann sá lík höfðingja síns og kenndi þá stóð hann upp skjótt og hart. Hann hafði öxi í hendi, hljóp hann skjótt innar á gólfið og hjó til Magnúss konungs, kom á hálsinn við herðarnar. Maður nokkur sá er öxin reið og skaut honum frá. Við það snerist öxin ofan í herðarnar og varð það mikið sár. Síðan reiddi hann upp öxina annað sinn og hjó til Orms konungsbróður. Hann lá í pallinum. Höggið stefndi á báða fótleggina. En er Ormur sá að maður vildi drepa hann brást hann við skjótt, kastaði fótum fram yfir höfuð sér og kom öxin í pallstokkinn. Stóð öxin föst. En vopn stóðu svo þykkt á Birkibein að varla mátti hann falla. Þá sáu þeir að hann hafði dregið um gólfið eftir sér iðrin og er þess manns hreysti allmjög lofuð.

Magnúss konungs menn ráku flóttann lengi og drápu allt það er þeir máttu. Þar féll Þorfinnur á Snös og féllu þar og margir aðrir Þrændir.