Heimskringla/Magnússona saga/1
Eftir fall Magnúss konungs berfætts tóku synir hans konungdóm í Noregi, Eysteinn, Sigurður, Ólafur. Hafði Eysteinn hinn nyrðra hlut lands en Sigurður hinn syðra. Ólafur konungur var þá fjögurra vetra eða fimm. En þann þriðjung lands er hann átti höfðu þeir báðir til varðveislu. Sigurður var þá til konungs tekinn er hann var þrettán vetra eða fjórtán en Eysteinn var vetri eldri. Sigurður konungur lét eftir fyrir vestan haf dóttur Írakonungs.
Þá er synir Magnúss voru til konunga teknir komu utan úr Jórsalaheimi og sumir úr Miklagarði, þeir menn er farið höfðu út með Skofta Ögmundarsyni og voru þeir hinir frægstu og kunnu margs konar tíðindi að segja. En af þeim nýnæmum girntist fjöldi manns í Noregi þeirrar ferðar. Var það sagt að í Miklagarði fengju Norðmenn fullsælu fjár, þeir er á mála vildu ganga. Þeir báðu konungana að annar hvor þeirra, Eysteinn eða Sigurður, skyldi fara og vera fyrir því liði er til útferðar gerðist. En konungarnir játtu því og bjuggu ferð þá með beggja kostnaði. Til þeirrar ferðar réðust margir ríkismenn, bæði lendir menn og ríkir bændur. En er ferðin var búin þá var það afráðið að Sigurður skyldi fara en Eysteinn skyldi hafa landráð af hendi beggja þeirra.