Heimskringla/Magnússona saga/13

Úr Wikiheimild

Eftir þetta bjóst Sigurður konungur til heimferðar. Hann gaf keisara öll skip sín og höfuð gullbúin voru á því skipi er konungur hafði stýrt. Þau voru sett á Péturskirkju. Kirjalax keisari gaf Sigurði konungi marga hesta og fékk honum leiðtoga um allt ríki sitt. Fór þá Sigurður konungur brott af Miklagarði en eftir dvaldist mikill fjöldi manna og gekk á mála.

Sigurður konungur fór utan fyrst á Bolgaraland og þá um Ungaraland og um Pannoniam og um Sváfa og Býjaraland. Þar fann hann Lossarium keisara af Rúmaborg og fagnaði hann honum forkunnarvel, fékk honum leiðtoga allt um sitt ríki og lét halda þeim torg svo sem þeir þurftu til allra kaupa.

En er Sigurður konungur kom í Slésvík í Danmörk þá veitti Eilífur jarl honum dýrlega veislu. Það var um miðsumarsskeið. Í Heiðabý fann hann Nikulás Danakonung og fagnaði hann honum afar vel og fylgdi honum sjálfur norður á Jótland og gaf honum skip með öllum búnaði, það er hann hafði í Noreg.

Fór þá Sigurður konungur heim í ríki sitt og var honum vel fagnað og var það mál manna að eigi hafi verið farin meiri virðingarför úr Noregi en þessi var og var hann þá tvítugur að aldri. Hann hafði þrjá vetur verið í þessari ferð. Ólafur bróðir hans var þá tólf vetra gamall.