Heimskringla/Magnússona saga/26

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Hallkell húkur, sonur Jóns smjörbalta, var lendur maður á Mæri. Hann fór vestur um haf og allt til Suðureyja. Þar kom til fundar við hann utan af Írlandi sá maður er hét Gillikristur og sagðist vera sonur Magnúss konungs berfætts. Móðir hans fylgdi honum og sagði að hann hét Haraldur öðru nafni.

Hallkell tók við þessum mönnum og flutti með sér til Noregs og þegar á fund Sigurðar konungs með Harald og móður hans. Þau báru fram sitt erindi fyrir konung. Sigurður konungur ræddi þetta mál fyrir höfðingjum að hver legði til eftir sínu skaplyndi en allir báðu hann sjálfan fyrir ráða. Þá lét Sigurður konungur kalla til sín Harald og segir honum svo að hann vill eigi synja Haraldi að hann fremji skírslu til faðernis síns, með því að hann vill það vera láta í festu, þó að honum berist það faðerni er hann segir, að Haraldur skal eigi beiðast konungdóms meðan Sigurður konungur eða Magnús konungsson lifir, og fóru þessar festur fram með svardögum. Sigurður konungur sagði að Haraldur skyldi troða slár til faðernis sér en sú skírsla þótti heldur frek því að hann skyldi þá skírslu fremja til faðernis en eigi til konungdóms. Hann hafði áður þar fyrir svarið. En Haraldur játti þessu.

Hann fastaði til járns og var sú skírsla ger er mest hefir verið ger í Noregi að níu plógjárn glóandi voru niður lögð og gekk Haraldur þar eftir berum fótum og leiddu hann biskupar tveir. Og þremur dögum síðar var skírslan reynd. Voru þá fætur hans óbrunnir.

Eftir það tók Sigurður konungur vel við frændsemi Haralds en Magnús sonur hans óþokkaðist mjög við Harald og margir höfðingjar sneru eftir honum. Sigurður konungur treystist svo vinsæld sinni við allt landsfólk að hann beiddist þess að allir skyldu það sverja að Magnús, sonur Sigurðar konungs, skyldi vera konungur eftir hann og fékk hann þá svardaga af öllu landsfólki.