Heimskringla/Magnússona saga/3
Útlit
Fjórum vetrum eftir fall Magnúss konungs fór Sigurður konungur liði sínu úr Noregi. Þá hafði hann sex tigu skipa.
Svo segir Þórarinn stuttfeldur:
- Svo kom fylkis
- framt lið saman
- margspaks mikið,
- mildingi vilt,
- að skip við skip
- skarfögr við lög
- hreins grams héðan
- hnigu, sex tigir.
Sigurður konungur sigldi um haustið til Englands. Þá var þar konungur Heinrekur sonur Vilhjálms bastarðs. Var Sigurður konungur þar um veturinn.
Svo segir Einar Skúlason:
- Vosöflugr réð vísi
- vestr helmingi mestum.
- Óð að ensku láði
- ægis marr und harra.
- Stál lét hilmir hvílast
- heiftglaðr og var þaðra,
- né gramr af val Vimrar,
- vetrlengis, stígr betri.