Heimskringla/Prologus (úr Jöfraskinnu)

Úr Wikiheimild
Heimskringla höfundur Snorri Sturluson
Prologus (úr Jöfraskinnu)

Í bók þessi lét eg rita fornar frásagnir um höfðingja þá er ríki hafa haft á Norðurlöndum og á danska tungu hafa mælt, svo sem eg hefi heyrt fróða menn segja, svo og nokkurar kynkvíslir þeirra eftir því sem mér hefir kennt verið. Sumt það er finnst í langfeðgatali því er konungar hafa rakið kyn sitt eða aðrir stórættaðir menn, en sumt er ritað eftir fornum kvæðum eða söguljóðum er menn hafa haft til skemmtanar sér. En þó að vér vitum ei sannindi á því þá vitum vér dæmi til þess að gamlir fræðimenn hafa slíkt fyrir satt haft.

Þjóðólfur hinn fróði úr Hvini var skáld Haralds hins hárfagra. Hann orti og um Rögnvald konung heiðumhæra kvæði það er kallað er Ynglingatal. Rögnvaldur var son Ólafs Geirstaðaálfs, bróður Hálfdanar svarta. Í því kvæði eru nefndir þrír tigir langfeðga hans og sagt frá dauða hvers þeirra og legstað. Fjölnir var sá nefndur er son var Yngvifreys þess er Svíar hafa blótað lengi síðan. Af hans ætt eru Ynglingar kallaðir.

Eyvindur skáldaspillir taldi og langfeðga Hákonar jarls hins ríka í kvæði því er Háleygjatal heitir er ort var um Hákon. Sæmingur er þar nefndur son Yngvifreys. Sagt er þar og frá dauða hvers þeirra og haugstað. Eftir Þjóðólfs sögn er fyrst rituð ævi Ynglinga og þar við aukið eftir sögn fróðra manna.

Hin fyrsta öld er kölluð brunaöld. Þá skyldi brenna alla dauða menn og reisa eftir bautasteina en síðan er Freyr hafði heygður verið að Uppsölum þá gerðu margir höfðingjar ei síður hauga en bautasteina til minningar eftir frændur sína. En síðan er Danur hinn mikilláti Danakonungur lét sér haug gera og bauð sig þangað bera dauðan með konungsskrúði og herbúnaði og hest hans með söðulreiði og mikið fé annað, en hans ættmenn gerðu margir svo síðan, og hófst þar haugsöld þar í Danmörku en lengi síðan hélst brunaöld með Svíum og Norðmönnum.

En er Haraldur hinn hárfagri var konungur í Noregi þá byggðist Ísland. Með Haraldi konungi voru skáld og kunna menn enn kvæði þeirra og allra konunga kvæði, þeirra er síðan hafa verið að Noregi, og tökum vér þar mest dæmi af því er sagt er í þeim kvæðum er kveðin voru fyrir sjálfum höfðingjunum eða sonum þeirra. Tökum vér það allt fyrir satt er í þeim kvæðum finnst um ferðir þeirra eða orustur. En það er háttur skálda að lofa þann mest er þá eru þeir fyrir en eigi mundi það þora að segja sjálfum honum þau verk hans er allir þeir er heyrðu vissu að hégómi væri og skrök og svo sjálfur hann. Það væri þá háð en eigi lof.

Frá Ara presti hinum fróða[breyta]

Ari prestur hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja. Ritaði hann mest í upphafi sinnar bókar um Íslandsbyggð og lagasetning, síðan frá lögsögumönnum, hversu lengi hver hafði sagt, og hafði það áratal fyrst til þess er kristni kom á Ísland, en síðan allt til sinna daga. Hann tók þar og við mörg önnur dæmi, bæði konungaævi í Noregi og Danmörk og svo í Englandi eða enn stórtíðindi er gerst höfðu hér í landi og þykir mér hans sögn öll merkilegust. Var hann forvitri og svo gamall að hann var fæddur næsta vetur eftir fall Haralds Sigurðarsonar. Hann ritaði, sem hann sjálfur segir, ævi Noregskonunga eftir sögu Odds Kolssonar Hallssonar af Síðu en Oddur nam að Þorgeiri afráðskoll, þeim manni er vitur var og svo gamall að hann bjó þá undir Nesi er Hákon jarl hinn ríki var drepinn. Í þeim sama stað lét Ólafur konungur Tryggvason efna til kaupvangs þar sem nú er.

Ari prestur kom sjö vetra gamall í Haukadal til Halls Þórarinssonar og var þar fjórtán vetur. Hallur var maður stórvitur og minnigur. Hann mundi það er Þangbrandur prestur skírði hann þrevetran. Það var vetri fyrr en kristni væri í lög tekin á Íslandi. Ari var tólf vetra gamall þá er Ísleifur biskup andaðist. Hallur fór milli landa og hafði félag Ólafs konungs hins helga og fékk af því uppreist mikla. Var honum því kunnigt um ríki hans. En þá er Ísleifur biskup andaðist var liðið frá falli Ólafs konungs Tryggvasonar nær átta tigum vetra. Hallur andaðist níu vetrum síðar en Ísleifur biskup. Þá var Hallur að vetratali níræður og fjóra vetur. Svo ritaði Ari.

Teitur son Ísleifs biskups var með Halli í Haukadal að fóstri og bjó þar síðan. Hann lærði Ara prest og marga fræði sagði hann honum, þá er Ari ritaði síðan.

Ari nam og marga fræði að Þuríði dóttur Snorra goða. Hún var spök að viti. Hún mundi Snorra föður sinn en hann var þá nær hálffertugur er kristni kom á Ísland en andaðist einum vetri eftir fall Ólafs konungs hins helga. Það var eigi undarlegt að Ari væri sannfróður að fornum tíðindum, bæði hér og utanlands, að hann hafði numið að gömlum mönnum og vitrum en var sjálfur námgjarn og minnigur.

En kvæðin þykja mér síst úr stað færð ef þau eru rétt kveðin og skynsamlega upp tekin.