Heimskringla/Ynglinga saga/13

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Vanlandi hét sonur Sveigðis er ríki tók eftir hann og réð fyrir Uppsalaauð. Hann var hermaður mikill og hann fór víða um lönd. Hann þá veturvist á Finnlandi með Snjá hinum gamla og fékk þar dóttur hans Drífu. En að vori fór hann á brott en Drífa var eftir og hét hann að koma aftur á þriggja vetra fresti, en hann kom eigi á tíu vetrum.

Þá sendi Drífa eftir Huld seiðkonu en sendi Vísbur, son þeirra Vanlanda, til Svíþjóðar. Drífa keypti að Huld seiðkonu að hún skyldi síða Vanlanda til Finnlands eða deyða hann að öðrum kosti.

En er seiður var framiður var Vanlandi að Uppsölum. Þá gerði hann fúsan að fara til Finnlands en vinir hans og ráðamenn bönnuðu honum og sögðu að vera mundi fjölkynngi Finna í fýsi hans. Þá gerðist honum svefnhöfugt og lagðist hann til svefns. En er hann hafði lítt sofnað kallaði hann og sagði að mara trað hann. Menn hans fóru til og vildu hjálpa honum en er þeir tóku uppi til höfuðsins þá trað hún fótleggina svo að nær brotnuðu. Þá tóku þeir til fótanna. Þá kafði hún höfuðið svo að þar dó hann. Svíar tóku lík hans og var hann brenndur við á þá er Skúta heitir. Þar voru settir bautasteinar hans.

Svo segir Þjóðólfur:

En á vit
Vilja bróður
vitta véttr
Vanlanda kom.
Þá tröllkund
um troða skyldi
líðs grím-Hildr
ljóna bága,
og sá brann
á beði Skútu,
menglötuðr,
er mara kvaldi.