Heimskringla/Ynglinga saga/37

Úr Wikiheimild

Granmar konungur spurði þessi tíðindi og þóttist hann vita að honum mundi slíkur kostur hugaður ef hann gyldi eigi varúð við.

Það sama sumar kemur liði sínu Hjörvarður konungur er Ylfingur var kallaður til Svíþjóðar og lagði í fjörð þann er Myrkvafjörður heitir. En er Granmar konungur spyr það sendir hann menn til hans og býður honum til veislu og öllu liði hans. Hann þekktist þetta því að hann hafði ekki herjað á ríki Granmars konungs. Og er hann kom til veislunnar þá var þar fagnaður mikill.

Og um kveldið er full skyldi drekka þá var það siðvenja konunga, þeirra er að löndum sátu eða veislum er þeir létu gera, að drekka skyldi á kveldum tvímenning, hvor sér karlmaður og kona svo sem ynnist, en þeir sér er fleiri væru saman. En það voru víkingalög þótt þeir væru að veislum að drekka sveitardrykkju. Hásæti Hjörvarðs konungs var búið gagnvart hásæti Granmars konungs og sátu allir hans menn á þann pall. Þá mælti Granmar konungur við Hildigunni dóttur sína að hún skyldi búa sig og bera öl víkingum. Hún var allra kvinna fríðust.

Þá tók hún silfurkálk einn og fyllti og gekk fyrir Hjörvarð konung og mælti: „Allir heilir Ylfingar að Hrólfs minni kraka“ og drakk af til hálfs og seldi Hjörvarði konungi.

Nú tók hann kálkinn og hönd hennar með og mælti að hún skyldi ganga að sitja hjá honum. Hún sagði það ekki víkinga sið að drekka hjá konum tvímenning. Hjörvarður lét þess vera meiri von að hann mundi það skipti á gera að láta heldur víkingalögin og drekka tvímenning við hana. Þá settist Hildigunnur hjá honum og drukku þau bæði saman og töluðu mart um kveldið.

Eftir um daginn er þeir konungar hittust Granmar og Hjörvarður þá hóf Hjörvarður upp bónorð sitt og bað Hildigunnar. Granmar konungur bar þetta mál fyrir konu sína Hildi og aðra ríkismenn og sagði að þeim mundi vera mikið traust að Hjörvarði konungi. Og nú varð rómur að og þótti þetta öllum ráðlegt og lauk svo að Hildigunnur var föstnuð Hjörvarði konungi og gerði hann brullaup til hennar. Skyldi þá Hjörvarður konungur dveljast með Granmar konungi fyrir því að hann átti engan son til ríkis að varðveita með sér.