Hálfdan hét sonur Eysteins konungs er konungdóm tók eftir hann. Hann var kallaður Hálfdan hinn mildi og hinn matarilli. Svo er sagt að hann gaf þar í mála mönnum sínum jafnmarga gullpeninga sem aðrir konungar silfurpeninga en hann svelti menn að mat. Hann var hermaður mikill og var löngum í víkingu og fékk sér fjár. Hann átti Hlíf dóttur Dags konungs af Vestmörum. Holtar á Vestfold var höfuðbær hans. Þar varð hann sóttdauður og er hann heygður á Borró.