Fara í innihald

Hrafns þáttur Guðrúnarsonar

Úr Wikiheimild
Hrafns þáttur Guðrúnarsonar

1. kafli

[breyta]

Þorgrímur hét maður. Hann bjó að Stað í Hrútafirði. Hann var féríkur og lítill búþegn. Þorgerður hét kona hans. Synir þeirra voru Kálfur og Grímur, mannaðir að hófi, ágangsamir og ótrúir í skapi sem faðir þeirra.

Maður hét Sighvatur. Hann bjó á Melum í Hrútafirði. Guðrún hét kona hans, skýr og sköruglynd. Hrafn hét sonur þeirra, ungur að aldri, vænn og mikill vexti.

Sighvatur hafði fé sitt mjög í kostnaði. Hann átti land gott en eyddust lausafé. Á einu sumri sagði hann konu sinni að selja mundi verða land þeirra til skulda og búfjár.

Hún svarar: „Þar liggur fyrir annað ráð. Sel heldur gullhring minn til skulda en eigi landið.“

Sighvatur svarar: „Þá mun verða að finna Þorgrím. Hann skortir eigi kvikfé.“

Hún svarar: „Letja vil eg þig að eiga kaup við Þorgrím. Hann er slægur og óheill.“

Sighvatur fór allt að einu til fundar við Þorgrím og mælti: „Það er mitt erindi að kaupa að þér kvikfé nokkur.“

Þorgrímur svarar: „Það er vel fallið.“

Sighvatur mælti: „Gullhringur þessi er til verðs látinn.“

Þorgrímur svarar: „Það er ódrengilegt bragð að selja gripi konu sinnar. Sel mér heldur eng það er þú kallar Grænateig. Eg þarf bæði hey og útbeit en þú hefir þó meir en nógar engjar eftir.“

Sighvatur svarar: „Selja mun eg þér teiginn en engra vil eg annarra manna beit í land mitt.“

„Sé þessu nú keypt,“ segir Þorgrímur.

Sighvatur kom heim og sagði húsfreyju kaupið.

Hún svarar: „Ókeypt mundi þessu ef eg hefði ráðið. Brátt mun hann beita upp land vort þegar hann þykist nokkurn spotta í eiga.“

Annan dag var þangað rekið kvikfé það er Sighvatur hafði keypt.

En er á leið sumarið mælti Þorgrímur: „Nú höfum vér heldur aukið engjar vorar en eg heyri það af konum að málnytu verði hagfátt og dugi lítt. Nú skal reka búfé vort í land Sighvats til beitar. Mér hefi eg nú helgað það land.“

Var nú svo gert.

En er Guðrún sá það mælti hún: „Eigi fór fjarri getu minni. Mér var lítið um kaup þetta. Hefir og illa gefist því að Þorgrímur fær nú til þræla sína að beita upp engjum vorum og heyjum.“

Sighvatur svarar: „Oftreynt er það að Þorgrímur launar illu gott.“

Einn dag gekk Sighvatur til og keyrði naut Þorgríms úr sæti sínu.

Þorgrímur kom þá að og mælti: „Djarfur gerist þrælsjafninginn nú.“

Hann lagði með spjóti í gegnum Sighvat svo að hann fékk þegar bana. Þorgrímur fór þegar heim.

Guðrún varð skjótt vör við þessi tíðindi og lét veita gröft bónda sínum og fór með hljóðlega. Hrafn sonur þeirra var þá fjögurra vetra. Hann nafntogaði oft föður sinn og spurði hvar hann væri. Móðir hans sagði að hann var dauður og hefði orðið bráðsjúkur.

Litlu síðar kom Þorgrímur til fundar við Guðrúnu og mælti: „Þér mun eg þykja hafa gert þér nokkurt skjótræði. Nú vil eg bæta þér manninn og gjalda mig í mót. Og ef þú vilt mína umsjá þekkjast þá mun þig fátt skorta.“

Hún svarar: „Það er líkast að sér búi hvort okkart. Em eg ekki svo manngjörn að eg mundi taka til mín bóndabana minn þótt þú værir kvonlaus.“

2. kafli

[breyta]

Hrafn óx þar upp með móður sinni. Hann var mikill og sterkur, blíður og vinsæll við alþýðu og gleðimaður mikill. Hann fór oft til leika til Staðar. Þorgrímur var vel við hann en Hrafn þekktist það vel. Þeir Kálfur sonur Þorgríms lékust jafnan við. Þá var Hrafn fimmtán vetra. Kálfur var eldri og óstyrkari. Fékk hann þungt af Hrafni því að hann var kappgjarn í leikinum.

Einn dag er þeir höfðu við leikist mælti Kálfur: „Illa kanntu Hrafn að stilla afli þínu og munt þú hafa farar föður þíns.“

Hrafn svarar: „Margtítt er það að menn deyi og svo mun mér verða.“

Kálfur mælti: „Leyndur ert þú hvað honum varð að bana. Hann var drepinn og gerði það faðir minn en eg mun drepa þig.“

Hrafn sneri þá brott og svaraði engu. Hann kom heim um kveldið ókátur. Móðir hans spurði hverju það gegndi.

Hann svarar: „Þú sagðir mér að faðir minn hefði orðið sóttdauður en Kálfur brá mér því í dag að hann hefði verið drepinn. En mér þykir undarlegt er þú leyndir mig því.“

Hún svarar: „Það gekk mér til að mér þótti þú ungur en ríkir menn til móts. En nú varðar eigi þótt sá seyðir rjúki er þeir hafa hreyft.“

Hrafn mælti: „Hvar er búið um föður minn?“

Hún kvað þar nú vallgróið yfir.

Hrafn mælti: „Koma skal eg þó þar til og mun eg nú vera glaður er eg veit hið sanna og væri mikið undir að hann ætti harðan son.“

Fór hann nú til leika sem áður og fann engi maður á honum ógleði.

Liðu nú stundir fram þar til er hann var átján vetra.

Þá var það einn dag er Hrafn var kominn í klæði sín eftir leik að Kálfur mælti: „Betra þykir Hrafni að herða knúa að knetti en hefna föður síns.“

Hrafn svarar: „Nú skal brátt.“

Snaraðist hann þá í mót Kálfi og hjó hann banahögg.

Þorgrímur mælti: „Þetta fór sem von var. En þó hæfir oss eigi að láta kyrrt.“

Hrafn kom heim og sagði móður sinni vígið.

Hún sagði það mundu vera dýrgilt: „Mun eg nú,“ sagði hún, „láta soninn sem fyrr bóndann. Far nú brott því að eg má þér enga hjálp veita.“

Gekk hún þá út með honum og bað hann fara með sér í útibúr er stóð í túninu. Þar var jarðhús mikið og vel um búist. Gekk hann í jarðhúsið og skorti hann ekki það er hann þurfti.

Um morguninn eftir kom Þorgrímur þar við tólfta mann. En Guðrún hafði safnað að sér mönnum um nóttina af næstum bæjum og hafði hún mannfleira fyrir en Þorgrímur.

Þorgrímur mælti: „Það er erindi vort að leita eftir Hrafni syni þínum og sel þú hann fram.“

Guðrún svarar: „Það er vorkunn að þú leitir eftir sonarbana þínum en eigi er hann hér. Var eigi þess von að eg mundi hafa afla eða dirfð til að halda hann fyrir þér í næsta húsi.“

Hann svarar: „Von þykir mér að þú segir ekki í hávaða þótt hann sé hér og viljum vér rannsaka bæ þinn.“

Hún svarar: „Ekki var eg hér til með þjófum talin og munt þú ekki rannsaka meðan þú hefir færri menn til en eg hefi fyrir.“

Lét hún þá drífa út mannfólk sitt.

Þorgrímur mælti: „Eigi ert þú ráðlaus.“

Reið hann brott við svo búið.

Á næsta sumri gerði Þorgrímur Hrafn sekan skógarmann á alþingi. Kaupskip var búið í Hrútafirði til hafs, er þetta gerðist, er áttu norrænir menn. Hét annar Einar, naumdælskur maður. Annar hét Bjarni. Einar var auðigur, drengur góður og kær vinur Magnúss konungs góða. Bróðir Einars hét Sigurður er á skipi var með honum. Sigurður var á ungum aldri og hinn mannvænlegasti.

Þorgrímur reið til skips þegar hann kom af þingi. Þá voru kaupmenn mjög albúnir.

Hann mælti til þeirra: „Eg vil yður kunnigt gera að eg á einn skógarmann er heitir Hrafn og vil eg vara yður við að þér flytjið hann eigi um Íslandshaf þótt hann sé yður boðinn.“

Þeim kvaðst þykja sér vandalaust að vísa af höndum öllum illmennum.

Litlu síðar komu þau mæðgin til skips og kölluðu á land Einar stýrimann.

Og er þau hittust mælti Guðrún: „Hér fer eg með son minn er hitt hefir í vandkvæði og munu sumir menn kalla honum drengsbót í sínu tiltæki. En eg verð þó nú vanafli til að halda hann fyrir Þorgrími því að hann er sekur orðinn. Vildi eg að þér flyttuð hann utan. Vænti eg að þér virðið meira í þessu máli frændur hans göfga í Noregi og málaefni heldur en ofurkapp og ósæmd Þorgríms er hann drap saklausan bónda minn, föður Hrafns, og lagði ógildan.“

Einar mælti: „Lítt er þessi maður leyfður fyrir oss og er mér ekki um að flytja seka menn.“

Þá mælti Sigurður bróðir hans: „Hví sýnist þér það ráð að vísa honum af hendi? Hyggur þú ekki að hversu vænlegur maðurinn er eða hversu drengilega hann hefir rekið sinna harma? Nú far þú til mín Hrafn þótt það sé minna traust en með bróður mínum og gakk þegar út á skip því að vér erum albúnir en veður byrvænlegt. Eða hverja áttu frændur í Noregi?“

Hrafn svarar: „Það segir móðir mín að Sighvatur skáld sé bróðir hennar.“

Sigurður mælti: „Njóta skalt þú hans frá mér.“

Hratt hann þegar út bryggjunni, drógu síðan upp akkeri og sveif skipinu frá landi.

Í því bili kom Þorgrímur af landi ofan og mælti við kaupmenn: „Það hygg eg að þér hafið mér nú lausmálir orðið.“

Sigurður mælti: „Sýn þú þig nú Hrafn. Hæfilega er Þorgrímur nú nær.“

Hrafn hljóp upp á búlkann og mælti: „Þá væri hann hæfilega nær ef öx mín tæki til hans.“

Bjarni bað þá flytja Hrafn til lands.

Sigurður mælti: „Það mundi eg vilja ef hann væri fenginn nauðigur í vald Þorgríms að nokkurir gengju stopalt að því starfi og sýnist mér meiri nauðsyn að vinda segl.“

Og var svo gert. Þeim byrjaði vel og tóku Þrándheim.

3. kafli

[breyta]

Ketill hét maður og kallaður rípur er þar hafði bæjarsýslu af hendi konungs. Signý hét kona hans en Helga dóttir. Hún var væn og vel að sér.

En er kaupmenn drifu frá skipi hver til síns heima þá mælti Einar til Hrafns: „Það mun til liggja að gera vel til þín þótt eg hafi eigi verið svo bráðfengur sem Sigurður. Vilt þú að eg taki þér hér vist í bænum en eg skal gefa fé fyrir þig? Þykir mér þetta nú auðveldara fyrst en þú farir með mér.“

Hrafn svaraði: „Eg vil vera auðráður þinni forsjá ef þú vilt mér vel. Ætla eg á engan mann að leita fyrri en gjalda grimmlega mótgerðir og vansæmd.“

Eftir þetta hittu þeir Ketil og mælti Einar: „Þenna mann fæ eg þér í hendur og ger vel til hans. En þú kom til mín Hrafn þá er þér líkar og tími er til.“

Hrafn var með Katli. Hann var hljóður og fáskiptinn en þó kátur við menn þá er orða ortu á hann. Löngum talaði hann við Helgu dóttur Ketils. Lét hann sér það vel líka um hríð því að Hrafn fór með sér vel.

Nú leið eigi langt áður Ketill sneri sínu skapi eftir sinni ódyggð og eiginlegri hugarlund. Hann tjáði þá fyrir konu sinni og dóttur að Hrafn væri óskapgæfur en nennti ekki að starfa og væri við þær of fjölræðinn.

Þær svöruðu báðar að það væri hæfilega og meinalaust: „Eru hans hættir þvílíkir nú,“ sögðu þær, „sem þá er þér líkaði vel til hans. Kann hann vel að vera með góðum mönnum.“

Ketill kvað þær heillaðar. Lagði hann fæð á Hrafn og orti um hann heldur hæðilega. Hrafn lét sem hann vissi það eigi.

Þar voru komnir kaupmenn til bæjarins vestan um haf og voru þá mjög brott búnir. Einn dag kom Ketill til þeirra og kvaðst hafa þræl einn að selja þeim. Þeir létu sér það vel gegna.

Hann mælti: „Ekki skal eg pretta yður í þessu kaupi. Hann er bæði lyginn og að mörgu öðru annmarkafullur og þurfið þér í fyrstu að taka hann fast og láta kenna harðinda.“

Mörgu keyptu þeir öðru.

Gekk Ketill þá heim í garð sinn og mælti til Hrafns: „Vilt þú ganga til skips með mér og skemmta þér?“

Hrafn svarar: „Fús em eg að fylgja þér ef þú ert í góðum hug.“

Og þegar er kaupmenn sáu Hrafn runnu þeir móti honum og gripu til hans. Hrafn hafði hendur fyrir sér og spurði hvað sjá leikur skyldi. Þeir sögðu hann varan mundu við verða. Hann varð þeim harður fyrir og sópaði þeim af sér. Þeir sögðu þenna þræl ofkátan.

Hrafn svarar: „Er nú svo þá. Þetta er mér þrælsverkið skapfelldast, að glíma, og hefi eg þó eigi fyrr jafnmikið að unnið.“

Tók hann þá einn þeirra og varðist með þar til er sá vissi ekki til sín. Ketill sneri þá upp í bæinn. Hrafn hljóp upp eftir honum og veitti honum banasár. En er kaupmenn sáu þetta bjuggust þeir brott sem hvatast því að þeir hræddust að þeim mundi kennt vígið.

Hrafn lýsti víginu sér á hendur. Gekk hann eftir það upp í garðinn er Ketill hafði átt og fann þær mæðgur og sagði nú það að gert að þeim mundi lítið um samvistur við hann. Þær sögðu illa hafa til borið en létu þó slíkt helst vorkunnarverk. Fengu þær honum bæði klæði og vist og báðu hann meir forðast konungs reiði en sína. Síðan gekk hann á merkur og skóga huldu höfði.

4. kafli

[breyta]

Magnús konungur kom litlu síðar til bæjarins og spurði þessi tíðindi.

Hann varð reiður við og mælti: „Slíkt eru firn mikil að Íslendingar skuli til þess fara hingað í land að drepa umboðsmenn vora eða sýslumenn og skal þann mann gera útlægan sem verkið hefir unnið.“

Einar Naumdæll var þá með konungi og mælti: „Búa má maður herra svo illa sína sök til að hann hafi fyrirgert sér.“

Litlu síðar var það að konungur fór á veiðar einn dag með haukum og hundum og dreifðust menn frá honum svo að hann varð einn saman staddur. Þá kom að honum úr skóginum maður mikill í loðkápu og bað hann ásjá.

Konungur mælti: „Hver vandi er mér á við þig?“

Hann svarar: „Engi annar en frændur mínir eru vinir þínir og enn drengskapur þinn að þú synjar engum manni ásjá er þig biður.“

Konungur mælti: „Kolur heitir maður er býr suður í Þauskadal. Þangað skal þig senda til vistar. Eða hver ert þú?“

Hann svarar: „Spellvirki hefi eg verið en eg vil nú af því láta. Á eg sökótt við fólkið og beiði eg því ásjá. Nú ef þér viljið mig þangað senda til Kols þá fáið mér skýrar jarteignir að hann taki við mér og mun eg þar vera í vetur.“

Konungur mælti: „Ger þú svo og mun eg þar koma viku eftir páska.“

Tók konungur þá fingurgull af hendi sér og dró á spjótsoddinn og rétti svo að honum því að hann gekk ekki nærri.

Konungur mælti til hans: „Hvað hyggur þú að hann Hrafn útlaginn geri af sér?“

Hann svarar: „Herra, hann mun sækja á fund Einars hins naumdælska vinar þíns og hafið þér þá þegar vald á honum.“

Tók hann þá gullið af spjótsoddinum og hvarf jafnskjótt í skóginn.

Þá mælti konungur: „Lék hann mig nú Hrafn og gabbaði.“

Hrafn kom til Kols og sýndi honum jarteignir konungs til viðtöku.

Kolur mælti: „Þetta mál fer undarlega. Þú hefir sannar jarteignir konungs en hefir áður óvingast við hann.“

Hrafn var þar um veturinn og líkaði hverjum manni vel við hann. En eigi vildi hann þar bíða konungs og fór brottu laugardag í páskaviku.

En er konungur kom þar mælti hann til Kols: „Hvar er Hrafn Guðrúnarson? Hann verð eg að finna.“

Kolur svarar: „Brottu er hann nú herra.“

Konungur mælti: „Það er illa. En viti það allir menn að hann er nú útlægur og friðlaus. Þykir mér meiri vera svívirðing mín er hann hefir gabbað mig en vígið og því legg eg nú þrjár merkur silfurs til höfuðs honum. Skal nú og engum manni tjá að biðja honum líknar eða lífsgriða.“

Hélt konungur þá miklum her suður með landi og ætlaði til Danmerkur því að í þenna tíma var hið mesta stríð með þeim Sveini Úlfssyni.

5. kafli

[breyta]

Þá er hálfur mánuður var af sumri kom Hrafn úr mörkum fram til sjóvar einhvers staðar. Hann sá þar skipaflota mikinn. Hann sneri þar að sem sveinar bjuggu mat á landi.

Hann gekk heldur óframlega og spurði: „Hver á þenna mikla skipaflota?“

Þeir svöruðu: „Þú munt vera ófróður maður og heimskur. Magnús konungur liggur hér því að honum gefur eigi byr að sigla til Danmerkur.“

Hrafn spurði: „Hvað er hér virðingamanna með konungi?“

Þeir sögðu að þar var fyrir Einar hinn naumdælski vinur konungs og Einar þambarskelfir með þrettán skipum „en Sighvatur skáld er á konungs skipi.“

Hrafn mælti: „Segið þér Sighvati að maður á skylt erindi við hann á landi.“

Þeir gerðu svo. Hrafn stóð við skóginn meðan.

Sighvatur kom á fund hans og mælti: „Hver er þessi hinn mikli maður?“

„Sjá heitir Hrafn,“ segir hann.

Sighvatur mælti: „Forða þér. Eigi mun eg taka fé til höfuðs þér og eigi vil eg segja til þín þótt eg hafi fundið þig.“

Hrafn svarar: „Eigi er það svo einsætt. Þú ert kallaður maður fégjarn en mér er lítið lífs að missa og verður margur maður meira að vinna til minna fjár. En þótt þú segir til mín og öx konungs sé langskeft þá mun hún þó eigi taka í skóginn til mín. En ef þú vilt mér gagn gera þá samir þér það og allvel því að þú ert móðurbróðir minn.“

Hann svarar: „Við kennist eg frændsemi þína en eigi hefi eg traust til að veita þér lið. Nú bíð þú mín hér.“

Hrafn svarar: „Eg vil ganga með þér á skipið út. Þykir mér betra að vera þar drepinn hjá þér og eigi munt þú minna leggja til við mig.“

Sighvatur svarar: „Þú ert vandræðamaður. Eigi hæfir að eg selji þig svo undir öxi því að þetta mætti okkur eigi endast þótt eg hefði hér til allra manna lið og bænafullting. Ger nú sem eg beiði. Bíð mín hér meðan eg hitti vini mína.“

Hrafn svarar: „Gera skal sem þú beiðir um litla stund. Þó mun eg skjótt koma eftir þér því að eigi skal bæði bíða þungan banann og hyggja lengi til.“

Sighvatur hitti Einar hinn naumdælska og mælti: „Nú er svo félagi að í vandkvæði er slungið. Hér er nú kominn Hrafn og vill ekki annað en ganga á vald óvina sinna. Eða hvað skal eg þar eiga er þú ert?“

Hann svarar: „Ógiftumaður er hann en skyldir erum vér að forða honum við bana en berjast eigi fyrir hann móti konungi við lítinn afla. Mun konungur síðan aldrei vort lið þiggja ef vér göngum nú í móti honum.“

Því næst gekk Sighvatur fyrir Einar þambarskelfi og mælti: „Skal eg nokkuð traust eiga þar er þú ert Einar?“

Hann svarar: „Hvers þarftu við?“

Sighvatur mælti: „Hér er kominn Hrafn frændi minn.“

Einar mælti: „Eigi em eg þess búinn að berjast við konung fyrir hann. Það var einn tíma er eg hélt þann mann sem konungur hafði reiði á og var við sjálft að eg mundi eigi í þrift komast. Nú höfum við Eindriði hér þrettán skip til forráða og ætlum til bardaga við Dani með konungi. Nú vísa þú manninum á brott að hann forðist og lát hann eigi komast á vor skip að hann sé þar drepinn, því að eg kann kappi Magnúss konungs að heldur mun hann missa vors liðs en taka af oss afarkosti.“

En meðan þeir áttu þetta við að talast gekk Einar hinn naumdælski á land til fundar við Hrafn og mælti: „Ger svo vel félagi, snú eigi öllu fólki í vanda. Far heldur brott að mínu ráði. Eg vil senda þig norður til Hítar til bús míns. Þar munt þú hólpinn um hríð.“

Hrafn svarar: „Finna vil eg Sighvat áður.“

Gekk Einar brott en Sighvatur kom þar litlu síðar.

Hrafn mælti: „Hversu gefst nú höfðingjatraustið?“

Hann svarar: „Ekki mjög og ert þú eigi gæfudrjúgur eða hvað munt þú nú ráða taka?“

Hann svarar: „Slíkt sem eg hefi áður sagt, ganga út á konungsskipið með þér.“

Sighvatur mælti: „Hví vilt þú svo hrapa til dauðans?“

Hrafn svarar: „Því að mér þykir betra að deyja en fella konungs reiði á yður alla er varir hafið orðið við mig sem vís von er þegar hann spyr að þér hafið mér undan skotið.“

Sighvatur svarar: „Drengilega er slíkt talað. Er og enn eftir fulltrúinn minn og skal nú þangað leitað traustsins sem enn hefir aldrei bilað en það er hinn heilagi Ólafur konungur.“

Lagðist hann þá til bænar og hét á Ólaf konung. Eftir það gengu þeir út á konungsskipið. Magnús konungur hafði sofnað í lyftinginni og vaknaði í því er þeir Sighvatur voru komnir í fyrirrúmið.

Hann spratt upp hart og kallaði: „Upp allir mínir menn, byr er á kominn en vís sigurinn er vér komum til Danmerkur.“

Bjó þá hver sitt skip og sigldu þegar þeir voru búnir. En er þeir komu til Danmerkur gekk allt fólk á land af skipum. Var þar fyrir mikill Danaher og tókst hin mesta orusta. Magnús konungur var í framanverðri fylking en Hrafn Guðrúnarson gekk fram fyrir konung og barðist allfræknlega. En engi maður mælti orð við hann. Í þeim bardaga sáu nokkurir menn hinn heilaga Ólaf konung með liði Magnúss konungs og fékk hann þann dag fagran sigur.

6. kafli

[breyta]

Þeir komu aftur til skipa um kveldið og þökkuðu guði sigur sinn.

En er þeir voru á skip komnir mælti konungur: „Hvar er hann nú Hrafn? Gangi hann nú fram og felist eigi.“

Einar og Sighvatur mæltu til konungs: „Gefið manninum frið herra, svo frækn sem hann er.“

Konungur svarar: „Engu heiti eg um það en sjá vil eg hann.“

Þá gekk Einar hinn naumdælski til Hrafns og mælti: „Nú skalt þú ganga fyrir konung og ger þig við hann mjúkorðan og þó djarfmæltan. Seg honum satt og greinilega það sem hann spyr þig.“

Hrafn gekk fyrir konung og kvaddi hann.

Konungur mælti: „Hví fluttir þú Einar sekan mann af Íslandi?“

Hann svarar: „Herra, því, að hann var um það sekur ger er hann hefndi föður síns er drepinn var meir en saklaus.“

Konungur mælti: „Hví drapstu Ketil, Hrafn?“

Hann svarar: „Því, herra, að hann níddi mig í kveðskap en síðan seldi hann mig í þrældóm. Og þá er eg hafði drepið hann kvað eg um hann erfiflokk lítt vandaðan.“

„Lát heyra hann,“ sagði konungur.

„Það skal svo sem þér viljið,“ sagði Hrafn, „en hlýða verðið þér þá og öðru kvæðinu.“

Konungur mælti: „Hvert er það kvæði?“

„Það er ort um yður,“ sagði Hrafn.

„Kveð þú þá,“ sagði konungur.

Hann gerði svo.

Og er lokið var báðum mælti konungur: „Misjöfn kvæði. Hví kvaðstu um mig svo gott kvæði en eg vildi bana þér?“

„Því, að þú varst góðs kvæðis verður,“ segir Hrafn.

Konungur mælti: „Hví komstu til mín á skóginum?“

Hrafn svarar: „Því, að eg vænti þaðan gæfunnar sem nú gafst er þér voruð en áður mjög þröngt kostinum er mér var engi dugnaðarmaður hér í ókunnu landi en hitt í þung tilfelli að drepa ríkan mann þótt mér þætti eigi fyrir sakleysi.“

Konungur mælti: „Nú er rannsakað allt þitt mál. En nú skal segja það er til mín heyrir. Þá er eg var sofnaður á skipinu kom að mér Ólafur konungur faðir minn og mælti styggt: „Þar liggur þú Magnús konungur og gefur meira gaum að drepa frænda skálds míns fyrir litla sök en að fá fagran sigur á Dönum, óvinum þínum, því að byr er á kominn. Taktu við öllum þeim vel sem nú eru á skipinu ella mun liggja á þér víti þessa heims svo að þér mun eigi duga.“ Og þegar eg vaknaði sá eg þá báða í fyrirrúminu, Sighvat og Hrafn, en miklu var eg hræddari orðinn við heitanarorð föður míns en eg geymdi þá drápsins Ketils eða annarra saka Hrafns. Nú skalt þú Hrafn vera hér með oss velkominn. Svo vill faðir minn. Og til yfirbóta við þig er eg hefi þér ónáðir gert skal eg gifta þér Helgu Ketilsdóttur með miklu fé.“

Hrafn svarar: „Þetta vil eg með þökkum þiggja. En út vil eg í sumar til Íslands og frelsa mig undan sekt og sökum en sækja síðan yðvarn fund sem skjótast og fara tvívegis í sumar ef svo vill takast.“

Konungur bað hann svo gera. Þá sagði Sighvatur skáld konungi að hann hafði heitið á Ólaf konung til fulltings Hrafni þá er hann hafði ekki traust af félögum sínum.

Konungur mælti: „Mikils virðir faðir minn vingan þína er hann veitir þér slíkt og annað það er þú biður hann, svo nú sem þá er hann lifði hér í heimi.“

Hrafn fór út um sumarið og kom til Íslands um alþingi. Var þá þegar færð fram sýkna hans. Síðan fór hann utan og móðir hans. Gekk Hrafn að eiga Helgu og gaf konungur þeim miklar eignir. Hrafn var jafnan síðan með Magnúsi konungi meðan konungur lifði. Þótti Hrafn röskur maður í öllum raunum.

Og lýkur þar nú frá honum að segja.