Hulduljóð
Útlit
Hulduljóð
Höfundur: Jónas Hallgrímsson
Höfundur: Jónas Hallgrímsson
- Skáld er ég ei, en huldukonan kallar
- og kveða biður hyggjuþungan beim.
- Mun ég því sitja, meðan degi hallar
- og mæddur smali fénu kemur heim,
- þar sem að háan hamar fossinn skekur
- og hulduþjóð til næturiðju vekur.
- Þrumi eg á bergi, þýtur yfir hjalla
- þokan að hylja mig og kaldan foss.
- Nú skal úr hlíðum hárra Tinnufjalla,
- svo huldumeyjar þægan vinni koss,
- óbrotinn söngur yfir dalinn líða
- eins og úr holti spóaröddin þýða.
- Þú, sem að byggir hamrabýlin háu,
- hjartanu mínu alla daga kær,
- sólfagra mey, djúpt undir bergi bláu,
- bústu að sitja vini þínum nær.
- Döggsvalur úði laugar lokkinn bleika,
- ljós er af himni, næturmyndir reika.
- Hvers er að dyljast? Harma sinna þungu.
- Hlægja þeir öld, er ræður þeim ei bót.
- Hvers er að minnast? Hins, er hverri tungu,
- huganum í svo festa megi rót,
- ætlanda væri eftir þeim að ræða,
- sem orka mætti veikan lýð að fræða.
- Að fræða! Hver mun hirða hér um fræði?
- Heimskinginn gerir sig að vanaþræl.
- Gleymd eru lýðnum landsins fornu kvæði.
- Leirburðarstagl og holtaþokuvæl
- fyllir nú breiða byggð með aumlegt þvaður.
- Bragðdaufa rímu þylur vesall maður.
- Háðungarorð, sem eyrun Huldu særa,
- ei skulu spilla ljóði voru meir.
- Sendið þér annan, sanninn heim að færa
- söngvurum yðar, Njörður, Þór og Freyr!
- Og hver sá ás, sem ata þeir í kvæði,
- eirðinni gleymi og hefni sín í bræði.
- Sólfagra mey! Ég sé - nú leit minn andi
- þanns seglið vatt í byrnum undan Skor
- og aldrei síðan aftur bar að landi.
- Eggert, ó, hyggstu þá að leita vor?
- Marblæju votri varpar sér af herðum
- vandlætishetjan, sterkum búin gerðum.
- Hvað er í heimi, Hulda, líf og andi,
- hugsanir drottins sálum fjær og nær,
- þar sem að bárur brjóta hval á sandi,
- í brekku, þar sem fjallaljósið grær,
- þar sem að háleit hugmynd leið sér brýtur.
- Hann vissi það, er andi vor nú lítur.
- Ó, Eggert! Þú varst ættarblóminn mesti
- og ættarjarðar þinnar heill og ljós.
- Blessuð sú stund, er fót hann aftur festi
- á frjórri grund við breiðan sævarós.
- Sólfagra mey! Hann svipast um með tárum,
- saltdrifin hetja, stigin upp af bárum.
- Hví er inn sterki úr hafi bláu genginn
- á hauður, sem í nætur faðmi þreyr?
- Veit ég, að þegar værðin góða er fengin,
- vinirnir gleyma að birtast framar meir.
- Ó, hve hann hefur eftir þráð að líta
- ástarland sitt með tignarfaldinn hvíta.
- Tárperlur bjartar titra þér í augum,
- tindra þær gegnum fagurt lokkasafn.
- sólfagra mey, því sjónar þinnar baugum
- séður er aldrei kappi þessum jafn.
- Þú elskar, Hulda, Eggert, foldar blóma,
- ættjarðar minnar stoð og frænda sóma.
- Ó, Eggert, hversu er þinn gangur fagur!
- Útivist þín er vorðin löng og hörð.
- Kær er mér, faðir, komu þinnar dagur.
- Hann kyssir, Hulda, þína fósturjörð.
- Sólfagra mey! Hann svipast um með tárum.
- saltdrifin hetja, stigin upp af bárum.
- Þú elskar hann - þess ann ég honum glaður.
- Ástin er rík, og þú ert hennar dís.
- Hér vil ég sitja, hér er okkar staður,
- ó, Hulda, þar til sól úr ægi rís.
- Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu,
- mín Hulda kær, að vinarbrjósti mínu.
- Hann svipast um. Nú sefur allt í landi.
- Svæft hefur móðir börnin stór og smá,
- fífil í haga, hrafn á klettabandi,
- hraustan á dúni, veikan fjölum á.
- Hann svipast um í svölum næturvindi
- um sund og völl að háum fjallatindi.
- Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu
- að hjarta mér, sem nú er glatt og traust.
- Hallaðu þér nú hægt að brjósti mínu.
- Hann hefur ekki starfað notalaust.
- Seint og að vonum svo fær góður njóta
- sín og þess alls, er vann hann oss til bóta.
- Hann líður yfir ljósan jarðargróða.
- Litfögur blóm úr værum næturblund
- smálíta upp að gleðja skáldið góða.
- Gleymir hann öðru og skoðar þau um stund.
- Nú hittir vinur vin á grænu engi:
- „Velkominn, Eggert! Dvelstu með oss lengi!“
- EGGERT:
- Smávinir fagrir, foldarskart,
- fífill í haga, rauð og blá
- brekkusóley, við mættum margt
- muna hvort öðru að segja frá.
- Prýðið þér lengi landið það,
- sem lifandi guð hefur fundið stað
- ástarsælan, því ástin hans
- allstaðar fyllir þarfir manns.
- Vissi ég áður voruð þér,
- vallarstjörnur um breiða grund,
- fegurstu leiðarljósin mér.
- Lék ég að yður marga stund.
- Nú hef ég sjóinn séð um hríð
- og sílalætin smá og tíð. -
- Munurinn raunar enginn er,
- því allt um lífið vitni ber.
- Faðir og vinur alls, sem er,
- annastu þennan græna reit.
- Blessaðu, faðir, blómin hér,
- blessaðu þau í hverri sveit.
- Vesalings sóley, sérðu mig?
- Sofðu nú vært og byrgðu þig.
- Hægur er dúr á daggarnótt.
- Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!
- Smávinir fagrir, foldarskart,
- finn ég yður öll í haganum enn.
- Veitt hefur Fróni mikið og margt
- miskunnar faðir. En blindir menn
- meta það aldrei eins og ber,
- unna því lítt, sem fagurt er,
- telja sér lítinn yndisarð
- að annast blómgaðan jurtagarð.
- ---
- Hulda! Hví grípa hendur þínar ljósu
- um hendur mér, og hví svo viknar þú?
- Veit ég þú elur eyrar fagra rósu,
- alsett er rauðum blómum Huldubú.
- Eggert er þér um ekki neitt að kenna,
- annazt hefurðu fjallareitinn þenna.
- Sjáðu, enn lengra svífur fram um völlu
- svásúðleg mynd úr ungum blómareit,
- sterkur og frjáls og fríður enn að öllu
- Eggert að skoða gengur byggða sveit.
- Hann fer að sjá, hve lífi nú á láði
- lýðurinn uni, sá er mest hann þráði.
- Brosir við honum bærinn heillagóði
- í brekkukorni, hreinn og grænn og smár.
- Þar hefur búið frændi hans með fljóði
- í flokki ljúfra barna mörg um ár.
- Þar hefur sveitasælan guðs í friði
- og sóminn aukizt glöðu bæjarliði.
- Þar hefur gerzt að fullum áhrínsorðum
- allt, sem hinn vitri bóndavinur kvað
- um dalalíf í Búnaðarbálki forðum,
- um bóndalíf, sem fegurst verður það.
- Sólfagra mey! Nú svífur heim að ranni
- sæbúinn líkur ungum ferðamanni.
- SMALI FER AÐ FÉ OG KVEÐUR:
- Það var hann Eggert Ólafsson,
- ungur og frár og vizkusnjall,
- stóð hann á hauðri studdur von.
- Stráunum skýldi vetrarfall.
- Meðan að sól í heiði hló,
- hjúkraði laukum, eyddi snjó,
- kvað hann um fold og fagra mey
- fagnaðarljóð, er gleymist ei.
- Kvað hann um blóma hindarhjal
- og hreiðurbúa lætin kvik,
- vorglaða hjörð í vænum dal
- og vatnareyðar sporðablik.
- Þó kvað hann mest um bóndabæ,
- er blessun eflir sí og æ,
- af því að hjónin eru þar
- öðrum og sér til glaðværðar.
- Það var hann Eggert Ólafsson,
- allir lofa þann snilldarmann.
- Ísland hefur ei eignazt son
- öflgari stoð né betri en hann.
- Þegar hann sigldi sjóinn á,
- söknuður vætti marga brá.
- Nú er hann kominn á lífsins láð
- og lifir þar sæll fyrir drottins náð.
- NIÐURLAG
- Sólfagra mey! Nú seilist yfir tinda
- úr svölum austurstraumum roði skær.
- Nú líður yfir láð úr höllu vinda
- léttur og hreinn og þýður morgunblær.
- Svo var mér, Hulda, návist þín á nóttu
- sem nú er ljósið jörð á votri óttu.
- Vertu nú sæl! Þótt sjónum mínum falin
- sértu, ég alla daga minnist þín.
- Vertu nú sæl! Því dagur fyllir dalinn,
- dunandi fossinn kallar þig til sín.
- Hann breiðir fram af bergi hvítan skrúða,
- bústaður þinn er svölum drifinn úða.
- Vertu nú sæl! Því sólin hálsa gyllir
- og sjónir mínar hugarmyndin flýr.
- Ó, Hulda kær, er fjöll og dali fyllir
- fjölbreyttu smíði, hvar sem lífið býr
- og dauðinn, sem að svo þig löngum kallar
- sá, er þig aldrei leit um stundir allar.