Jómsvíkinga saga/13. kafli

Úr Wikiheimild
Jómsvíkinga saga
13. kafli

Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

13. kafli - Lát Ólafar[breyta]

Það er nú sagt, að hið næsta sumar eftir, þá tekur Ólöf sótt, kona Pálnatóka, og leiðir hana sú sótt til bana. En eftir andlát hennar, þá unir Pálnatóki eigi á Bretlandi, og setur hann þá til ríkis þess að varðveita Björn hinn brezka. En hann býr nú úr landi þrjá tigu skipa og ætlar nú að leggjast í víking og hernað. Hann fer úr landi þegar er ferð hans er búin, og herjar hann það sumar til Skotlands og Írlands og aflar sér mikils fjár og ágætis í herförunum.

Hann hefir nú þessa íðn tólf sumur í samt, og verður honum bæði gott til fjár og virðingar. En þá er þetta er tíðast, að hann er í herförunum, þá fer hann eitthvert sumar til Vindlands og ætlar að herja þar, og hefir þá við fingið tíu skip og hefir þá fjóra tigu skipa.

En í þann tíma réð þar fyrir konungur sá er Brúizláfur hét, og hugði hann illt til hernaðarins, fyrir því að honum var sagt frá Pálnatóka, að hann hafði nær ávallt sigar, þar sem hann herjaði, og var hann ágæztur víkinga í það mund, og þótti hann vera hverjum manni vitrari og ráðgari, og gengur þungt við hann flestum.

Og vonu bráðara, þá er Pálnatóki kömur þar við land og Búrizláfur hefir spurt til hans og hvað hann ætlaðist fyrir, þá sendir konungur menn sína á fund hans og býður Pálnatóka til sín og lézt vildu eiga við hann frið og vinfengi; það lét hann og fylgja þessu heimboði, að hann bauð að gefa honum eitt fylki eða ríki af landi sínu, þar er heitir að Jómi, til þess að hann skyldi þar staðfestast, og mundi hann þetta ríki gefa honum einkum til þess að hann skyldi þá vera skyldbundinn til að verja land og ríki með konunginum. Og þetta þiggur Pálnatóki og allir hans menn, að því er sagt er.

Og þar lætur hann gera brálliga í sínu ríki sævarborg eina mikla og ramgjörva, þá er Jómsborg er kölluð síðan. Þar lætur hann og gera höfn þá uppi í borginni að liggja máttu í þrjú hundruð langskip senn, svo að þau voru öll læst innan borgar. Þar var umb búið með mikilli vélfimni er í var lagt inn í höfnina, og þar var sem dyr væri gervar, en steinbogi mikill yfir uppi. En fyrir durunum voru járnhurðir og læstar innan úr höfninni. En á steinboganum uppi var görr kastali einn mikill og þar valslöngur í. Sumur hlutur borgarinnar stóð út á sæinn, og eru þær kallaðar sæborgir er svo eru görvar og af því var innan borgar höfnin.