Fara í innihald

Jónsbók (2004)/Kaupabálkur

Úr Wikiheimild

Hér hefur upp hinn ellefta hlut lögbókar er heitir kaupabálkur og er fyrst greint um grip og fjárupptektir valdsmanna, hver sekt við liggur eftir lögum

1.

Það er nú því næst að vor skal engi fyrir öðrum taka. Ekki skulum vær oss að gripdeildum gera. Dóms er hver maður verður fyrir sínu að hafa. En sá er fyrir öðrum tekur skal það aftur færa og bæta þeim fullrétti er hann tók fyrir en konungi þrimur aurum fyrir það er hann tók rangliga. En sæki sitt eftir lögum síðan. Ef lendur maður eður konungs umboðsmaður tekur upp bú bónda ótalt eður ódæmt, eður veitir honum aðra fjárupptekt ólögliga, þá skal hann það allt aftur færa, og þó sekur tíu mörkum við konung. En hver sá mörk er honum veitir lið til þess. En þeim er féið átti fullrétti eftir lögligum dómi.

2. Hér segir hversu maður skal skuld verjast

Ef maður krefur mann fjár síns, þá skal hann svo kröfu verjast að kveðast þá skuld öðrum goldið hafa og nefna votta sína er við voru, stund og stað. Nú ef vottar eru innan héraðs, en þá er svo ef vatnföll deilast í milli til héraða, þá skal skapa þeim leiðarlengd til. En ef vottar eru utan héraðs, þá skal gera þeim lagastefnu að þeir komi þar og beri vitni það sem þeir voru við. Nú bera þeir svo vitni að þeir voru þar við er hann lauk þeirri skuld sér af hendi, þeim í hönd er átti eður hans lögligum umboðsmanni. En sá er lögligur er hann hefir til þess umboðs tvau löglig vitni, þá hefir hann rétt varða kröfu þá. Það heitir ályktarvitni. Þar skulu ekki andvitni í móti koma. Þessir menn mega eigi vitni bera: Sakaður, þjófur, meinsærismaður, eigi yngri en fimmtán vetra, fjórmenningar að frændsemi og mægðum, nema þeir sé báðum jafnskyldir. Fimmtán vetra gamall maður skal vera vitnisbær og eiga sjálfur rétt á sér ef honum verður með öfund misþyrmt, og svo skal fjárhaldsmaður hans fullu fyrir svara af hans góssi ef hann kann brotligur að verða. Rétt er að þeir menn beri vitni er verið hafa mágar manns ef þá er eigi mægð er vitni þarf að bera. Taka mega tveir við eins vitni ef sá er frumvottur er við var í fyrstu og er hann eigi fær og hafa hinir áður heyrt hans vitni, þá er það vitni jafnfullt sem þeir hafi allir við verið fyrir öndverðu. Feðgar tveir eður bræður tveir eru sem einn maður í hverju vitni nema tveir menn nefni þá til, utan þeir sé staddir við deild manna eða vígaferli. Allar þær skuldir er eiðar koma til, þá skal einn eyris synja, en tveir tveggja en þrír þriggja. En þó að fé sé meira, þá kemur eigi meiri eiður til en lýritareiður. Hvervetna þar sem menn kaupa saman að lögum, þá skal aftur ganga oftalt en fram vantalt þar til sem þeir hafast réttar tölur við.

3. Hér segir fjársóknir manna í héraði

Ef maður á fé að manni það er vottar vitu eður við er gengið, þá skal sá er skuld á að heimta krefja fjár síns við votta tvo, hvar sem hann hittir þann er gjalda á. Nú krefur maður mann fjár síns í réttan gjalddaga, þess er vottar vitu eður við er gengið, þá er vel ef hann geldur, ella stefni honum heima á fjórtán nátta fresti og krefi hann þar fjár síns. En ef hann vill þá eigi greiða, þá stefni honum þing og krefi þar enn skuldar sinnar. Nú vill hann eigi greiða, þá sekist hann tveimur aurum fyrir hverja kröfu. En þaðan af þinginu skal sækjandi nefna svo marga menn sem hann þikkist þurfa, og fara til heimiliss þess manns er skuldina átti að gjalda, og virða honum þar fé sitt og fullrétti eftir lagadómi af fé þrjóts, og eru allir bændur skyldir til þessar ferðar. Sekur er hver bóndi tveimur aurum við konung er eigi vill fara. Umboðsmaður konungs er skyldur til að fara og öðlast meður því hálfa mörk konungi til handa. En ef hann vill eigi fara, þá fellir hann með því konungs sekt. Nú standa menn fyrir og verja með oddi og eggju, þá falla þeir allir útlægir og óhelgir er fyrir standa, en hinir allir friðhelgir er til sækja og laga vilja gæta. En þó að þeir falli eigi er fyrir standa, þá er sá þó sekur þrettán mörkum við konung er skuld átti að gjalda. En hver hinna mörk er fyrir stóð með honum.

4. Hér greinir fjársóknir á eindöguðu fé

Nú er lánfé og dæmt fé og allt það fé er vitni vita eður sá gengur við er lúka á, þá skal svo sækja sem nú var mælt. En allt það fé er vitni veit að eindagað er, þá skal maður svo njóta votta sinna í eindaga sem hann hafi honum heim stefnt. Nú kemur sá eigi til er féið skyldi taka, en hinn kemur til er lúka á, þá skal hann bjóða fé í eindaga ef nökkur er sá þar kominn er um sé boðið með vottum að taka það fé. Og ef sá er þar, þá skal honum í hönd selja. En ef enginn er sá þar, þá skal sá segja féið úr sinni ábyrgð er lúka á og virða lét lögliga, og hafi síðan sjálfur og ábyrgist við sínum handvömmum þar til er sá kemur til er þá skuld á að taka að lögum, þá skal þeim í hönd selja. Eigi er maður skyldur að taka við kvikfé fyrr en sex vikur eru af sumri. Sex skynsamir menn skulu virða kvikfé allt. Nú kemur sá maður eigi til er heimta á kvikfé innan hálfs mánaðar forfallalaust, þaðan frá er goldið var lögliga, þá skal hinn hafa það kvikfé leigulaust til annarra fardaga er þá skuld á að lúka og láta laust er eigandi kemur eftir eður hans umboðsmaður. Ef maður sendir annan mann til gjalddaga fyrir sig með fé, þá er hinn eigi skyldur til við að taka, nema hann viti að sá maður hefir jafnmikið fé sem hann geldur. Og eigi er maður skyldur að greiða umboðsmanni fé, nema hann láti sverja tvau skilrík vitni það umboð áður, þar sem fé er goldið. Nú á maður fé að manni það sem eigi vitu vottar, þá skal sækjandi stefna honum heim til kvöðu og kveðja hann þar þess fjár er hann kallast eiga að honum. Hinn skal annaðhvort festa fé eður synja slíkum eiði sem fyrr segir. Nú vill verjandi hvorki eið vinna né fé festa, þá sannar hann sér skuld þá á hendur og sæki að fyrri sókn. Nú kaupast menn við og er eigi ákveðið nær gjaldast skal, þá skal gjaldast á næstum fardögum eftir.

5. Hér segir hvað lögauragjald er

Ef mæltir eru lögaurar með landsmönnum hér og þó að maður mæli svo við annan, að þú skalt mér vaðmál fá, en skilur eigi frá aðra aura, þá nítar hann eigi lögaurum ef eigi er vaðmál til. Nú er lögeyrir sex álnar vaðmáls nýtt og ónotið, tveggja álna breitt og eigi því lengra að jaðri en hrygg að muni öln í tuttugu álnum, og skal stika hvort er vill að hrygg eða jaðri, og svo kosti sem tekið er á alþingi. Að skemmra jaðri skal stika ef skakkt er. Mórent vaðmál sex álnar fyrir eyri. Geldingaklippingar sex fyrir eyri. Haustlambagærur skulu vera sex fyrir eyri. Eyrir gulls þess er stenst elding fyrir sex tigi aura. Eyrir brennds silfurs fyrir sex aura. Járnketill nýr og óeldur og vegi fjóra fjórðunga, og liggi í átta skjólur fyrir fimmtán aura. Það er katlamálsskjóla er tré er sett í lögg og tekur öðrum megin á þröm upp, tólf þumlunga meðalmanni í naglsrótum. Stæltur lér, eggelningur, og vegi átján aura, heill og stálsleginn, þeir skulu þrír fyrir tvo aura. Átta fjórðunga vætt blásturjárns fyrir fimm aura. Vætt fellujárns fyrir sex aura.

6. Hér segir kvikfjárlag á vor

Þetta er enn fjárlag svo sem lagt er dýrt á vor í því héraði. Kýr átta vetra gömul og eigi yngri en að öðrum vetri og hafi borið tvo kálfa, heil og heilspenuð, og hafi kelft um veturinn eftir Pálsmessu, eigi verri en meðalkýr, héraðræk að fardögum. Þrjú veturgömul naut við kú. Tvau tvævetur naut við kú. Kýr geldmjólk eður kvíga að fyrsta kálfi tveimur aurum verri en kýr. Uxi fjögurra vetra gamall, graður eður geldur, við kú. Uxi þrevetur tveir hlutir kúgildis og kýr geld með sama lagi. Uxi fimm vetra þriðjungur annars kúgildis. Uxi sex vetra, tveir hlutir annars kúgildis. Uxi sjau vetra fyrir kýr tvær og svo þó að ellri sé, landgenginn. Arðuruxi gamall á vor, hann er metfé. Sex ær við kú, tvær tvævetrar og fjórar gamlar, og fæði lömb sín, órotnar, loðnar og lembdar að fardögum. Sjau lambskotur við kú. Átta ær algeldar, þrevetrar og ellri við kú. Átta lambgymbrar og fæði lömb sín við kú. Átta geldingar tvævetrir við kú. Sex geldingar þrevetrir við kú. Fjögurra vetra gamall geldingur og annar tvævetur fyrir ær tvær. Hrútur tvævetur ágildur. Tólf veturgamlir sauðir við kú. Allt þetta fé skal vera gilt og í ullu. Þrevetur forustugeldingur og ellri, það er metfé. Geitur sex með kiðum og svo farið sem ám við kú, en átta algeldar við kú, þrevetrar og ellri. Sjau lambskotur við kú. Átta höðnur og fæði kið sín við kú. Átta tvævetrir hafrar við kú, fjórir kjarnhafrar en fjórir algeldir. Sex þrevetrir við kú, þrír hvorir, fjögurra vetra gamall hafur og annar tvævetur fyrir geitur tvær. Tvævetur hafur jafn geit. Ef hafrar eru ellri en nú eru taldir, það er metfé. Tólf veturgamlir geitsauðir við kú, hálft höðnur og algeldingar en hálft kjarnhafrar og geldhafrar. Hestur fjögurra vetra gamall og eigi ellri en tíu vetra, heill og lastalaus, jafn við kú. Hross með sama aldri, heilt og lastalaust, fjórðungi verra en kýr. Hestur þrevetur jafn við hross. Hross þrevett tveir hlutir kúgildis. Tvævett hross og hestur tvevetur við kú. Þrjú veturgömul hross og einn hestur í við kú. Ef maður geldur eitt hross veturgamalt fyrir þriðjung kúgildis, þá skal fylgja eyrir, þetta skulu vera meðalhross. Stóðhestur og sé verði betri fyrir vígs sakir. Geldur hestur og sé verði betri fyrir reiðar sakir og fylhross í stóði, það er allt metfé. Sýr tvævetur og ellri með níu grísum við kú. Albreitt léreft þrjár álnar fyrir tvo aura. Enskt léreft tvíelnt, tvær álnar fyrir eyri. Mörk vax fyrir eyri. Skrúðklæði ný, skorin og óskorin, hafnarvaðmál ný og ónotin. Kattaskinn ný og lambaskinn, flatsmíði nýtt, vörusmíði nýtt, teint járn, eirkatlar nýir, það er allt metfé, og þó réttgoldnir lögaurar. Allt metfé skulu virða sex skynsamir menn, þrír af hvors hendi. Þrjár átta fjórðunga vættir gamalla sauða ullar við kú. Þrjár vættir mjölvægs matar við kú. Vætt veturgamalla sauða ullar og öldungshúð þriðjungur kúgildis og bæti eyri á hvort. Tvær kýrhúðir við öldungshúð. Rétt er ef snöggvar ær eru goldnar að láta fylgja vætt ullar tuttugu ám.

7. Hér segir hversu öreigi skal leysa sína skuld

Ef öreigi á manni skuld að gjalda, sá er látið hefir peninga sína fyrir eldi eður skipsbrotum eður öðrum misfellum, sveri eineiði að hann skal lúka þá skuld þegar guð gefur honum efni til, ef eigandi heimtir, og hefir hann eigi áður við óskil kenndur verið. Nú krefur maður skuldar þann öreiga er eigi eru slík tilfelli er fyrr voru töld, varðveiti hann í gæslu og kveði þings, og láti fara lausan á þing fram og bjóði frændum hans að leysa hann undan skuld þeirri er hann á að lúka. En ef þeir vilja eigi leysa hann þá dæmi þingmenn að hann vinni af sér þar sem hann fær sér vinnu, þeim til skuldar er á. En ef hann hleypur brott, hafi refsing eftir lagadómi, nema skynsömum mönnum virðist meiri miskunnar vert og skipi þeir sem þeir vilja svara fyrir guði eftir atvikum. Um þá lausamenn sem óskil gera og skuldir eiga að gjalda, þá taki sýslumaður góss þeirra meður vitorði skilríkra bónda og lúki hverjum sína skuld ef til vinnst, ella missi hver maður sá er skuld átti að honum eftir því sem tala rennur til. Svo skal gera hver sýslumaður í sinni sýslu.

8. Hér segir hversu skuld skal ná eftir dauðan mann

Nú er sá dauður er skuldina átti að lúka, en hinn lifir er heimta á, þá kemst hann eigi til skuldar nema með vottum, því að engi skal eið sverja fyrir brjóst hins dauða. Erfingi skal þann eið sverja ef hann er fulltíða maður, ella fjárhaldsmaður hans lögligur, að eigi var sú skuld svo að hann vissi, þá sver hann fyrir sitt brjóst en eigi hins dauða. Nú stendur skuld tuttugu vetur eður lengur, þá fyrnist sú skuld fyrir vottum en hann má koma hinum til eiða ef hann vill, því að í salti liggur sök uns sækjendur duga. Engi maður skal nú ábyrgjast vitni um skuldalyktingar lengur en þrjú ár ef skuld er minni en sex hundruð. En ef skuld er meiri ábyrgist eigi lengur vitni en fimm ár.

9. Hér segir hverja fjársókn utanhéraðsmaður skal hafa

Nú kemur sá maður í hérað er þú vill sótt hafa um eitthvert mál og á engan erfingja í því héraði og var eigi þar náttina helgu, þá skal hann spyrja hann að heimili sínu og ef hann nefnir heimili sitt þá skal stefna honum þannig. Eigi skal hann segja að valdsmanns nema þar sé. En ef hann vill eigi segja, þá skal hinn lýsa undir votta og stefna honum hverjum í garð er hann vill, nema sjálfum sér, og sækja hann þar síðan. Þá er og rétt stefnt hverjum manni er stefnt er á kauprein þar er þeir keyptust við. Svo skal einhleypum manni heim stefna sem bónda þangað sem erfingi hans er innan héraðs, ella skal spyrja hann að heimili sínu, þar skal vera sem hann segir, nema hann segi að valdsmanns. Engi maður skal sök gefa á annars fé.

10. Hér segir hversu umboð skal taka og mál sækja að lögum

Nú skulu héraðssóknir standa um alþingi og sjau nætur fyrir og eftir og um langaföstu. Kristinsdómsrétt má jafnan sækja og ný verk þau er verða. Ekki má að sóknum gera á löghelgum dögum, nema stefna manni heim að eins og til lögmanns. Maður má stefna manni heimstefnu annars manns sem sjálfs síns ef hann hefir umboð til þess með vottum og svo til lögmanns. Eigi er umboð fullt að lögum nema með vottum og handsölum. Sjálfur skal hver sína sókn sækja, frjáls maður og fulltíða, ef hann er innan lands. En ef hann hefir eigi kunnáttu til eður menning, þá sæki konungs umboðsmaður honum til handa og öðlist svo þá sekt sem við liggur að lögum, og ekki framar. Ef maður fer af landi í brott, þá skal sá halda fé hans um þrjá vetur er hann hefir um það boðið með vottum að halda skyldi, og sá skal hafa sókn og vörn fyrir hann. En ef hann er lengur í brottu en þrjá vetur, þá skal sá hafa sókn hans og fjárhald er arfi er næstur og eyða öngu af. En ef hinn kemur aftur, lúki honum slíkt er hann tók og vottar vitu að hann átti. Svo skal konu sækja sem karlmann ef hon er ein fyrir sér. En hon á kost að selja hverjum er hon vill sókn sína og vörn. Eigi skal hon selja valdsmanni eður ofríkismanni þeim er við hana á. Maður má sækja hennar sök sem sína ef hon hefir honum lögligt umboð til þess fengið með vottum. Nú vill maður sækja annan mann um eitthvert mál, en honum hefir annar maður fyrr sókn á hendi, þá skal sá af láta fyrr er síðar tók til, því að eigi má hann tveimur senn svara nema það sé vælasókn við hinn gjör.

11. Hér segir um falskaup og lagakaup, hversu fara skal

Hvervetna þar sem menn kaupa jarðir eður skiptast við húsum, skipum eða öðrum gripum, þá skal kaupa meður handsölum og meður vottum tveimur eður fleirum og með heimildartökum. En öll önnur kaup þá skulu haldast ef handsöluð eru og svo öll þau er vottar vitu, ef þeir menn kaupast við er kaupum sínum eigu að ráða, nema maður seli óheimilt eður sé fals í, þá skal það kaup aftur ganga en hinn hafi andvirði sitt. Ef maður selur gull eður brennt silfur, smíðað eður ósmíðað, það er skírt skal vera og fyrir skírt var selt, það skal skírt vera. Svo og ef maður selur hunang í tunnum eður vökkum, malt eður korn í pundum, mjöl í sekkum, smjör eður salt í laupum eður nökkurn þann hlut sem í belgjum eða böndum er, það skal jafngott utan sem innan, því að engi skal öðrum selja fox né flærð. En ef sá gerir fals í er seldi, bæti rétt sinn þeim er seldi en konungi þrettán merkur, nema meira eður minna virðist að lögum. En ef hann seldi slíkt er hann keypti og vissi þó að fals var í, og vildi þó eigi úr taka, gjaldi þeim mörk er keypti en konungi sex merkur. Svo og ef maður selur klæði, léreft eður vaðmál, og allt það er fals er í, svari slíku fyrir sem áður vottar sá er seldi, nema því aðeins að hann vissi eigi að fals var í og hafi fyrir sér séttareið. Síðan hafi hver fram sinn heimildarmann þar til er til prófs kemur og svari sá fyrir fals er að lögum á fyrir að svara. Það er allt fals er skynsamir menn meta til fals. En eigi skal það sýslumaður meta né hans umboðsmaður, því að þá má virða til ágirni. Nú eru kaup handsöluð og eru eigi vitni til, syni eineiði sá er seldi eður kaup haldist.

12. Hér segir fyrir hverjum kaupum innsigli skulu vera

Öll þau skilorð sem menn gjöra í kvennagiftingum og svo ef menn kaupa jarðir, og fyrir hvert sex hundraða kaup eður meira, þá skal hvor tveggi gjöra bréf eftir kaupi sínu og skildaga, og nefna votta sína þá er við voru, stund og stað, og hafi fyrir lögmanns innsigli eður sýslumanns, eður nökkurra skilríkra manna er við voru kaup þeirra. En ef eigi fær innsigli, gjöri cirographum, og beri það vitni kaupi þeirra ef eigi eru vottar til, hvort sem það dæmist fyrir lögmanni eður öðrum réttum dómara þess máls.

13. Hér segir hversu menn skulu vitni bera

Hvert mál það er vitnað verður undir mann og svo þó að eigi sé vitnað, hvort sem heldur hefir maður séð eður heyrt á, þá skal hann bera það vitni lögliga til kvaddur af réttaranum. En ef hann vill eigi bera, þá skal sakaráberi krefja hann þess vitnisburðar. En ef hann vill þá eigi bera heldur en áður, þá er hann sekur mörk, hálft konungi en hálft þeim er sækir. Svo skal hann og bera það vitni sem hann er eigi nefndur til, að hann skal bera viðurvist sína eftir því sem framast sá hann og heyrði. Síðan dæmi lögmaður eður dómsmenn hversu fullt þeim þikkir það vitni. En sá er vitna þarf skal halda þeim kost allan.

14. Hér segir hversu kaup má halda eður rjúfa

Nú skulu haldast öll handsöluð mál þau er haldast eiga að lögum og lögbók mælir eigi í móti. Það má eigi haldast ef maður selur það öðrum er hann hefir áður öðrum selt. En ef sá hefir hönd að er síðar keypti, þá má hann halda skiladómi fyrir kaupi sínu til lögmanns úrskurðar. Nú á sá kaup að hafa er fyrri keypti ef honum fullnast vitni að skiladómi, þá er þeim kaupfox er síðar keypti, þá skal hann lýsa undir valinkunna menn. Það er kaupfox ef maður kaupir það er hinn átti ekki í er seldi, nema að þess ráði væri selt er átti. Nú skal hann hitta þann er honum seldi og heimta sitt af honum. En ef hann vill eigi honum í hönd selja, þá skal hann honum heim stefna og njóta votta sinna að hann lét að lögum laust, og krefi hann fjár síns og leggi honum rán við. En ef hann selur öðrum síðan, þá er hann sekur hálfri mörk við konung. Nú ef hann fær eigi hinum það sama kaup eður annað jafngott, þá gjaldi hann eyri af merkurkaupi hverju þeim er keypti, og þó eyri að kaup sé minna, og sé þeir þá sáttir. En sá er vísvitandi keypti það að annar hefir fyrr keypt, sekur eyri við konung fyrir merkurkaup hvert. Nú kaupir maður við útlægan mann, þá á konungur það fé er hann keypti að honum, og þó sekur sex aurum við konung eður syni meður lýritareiði að hann vissi eigi að hinn væri útlægur.

15. Hér segir um lögleigu á kúgildum

Nú af því að í þvísa landi þurfa margir menn við leigufé að hjálpast, því skal engi selja dýrra málnytukúgildi á leigu en tveimur fjórðungum smjörs eður ala fjögur lömb eftir kúgildi, og ábyrgist sem fúlgufé. En sex skynsamir menn meti hvort sá er leigði hefir til fóður eður smjör. Og ef eigi er til, gjaldi hann annan mat jafnvirðan ef hann þarf eigi úti til að kaupa, ella leysi tólf álnum vaðmáls. En sá er dýrra selur skal eigi meira hafa en lögleigu og tvígildi það sem hann aukar lögleiguna. En geldfjárkúgildi eftir samkomulagi er rétt að byggja tólf álnum vaðmáls. En af því að hver maður verður skyldur að hjálpa jafnkristnum sér afarkostalaust, allra helst er þeir taka svo mikinn ávöxt á sínu góssi, þá skulu allir skyldir að byggja sína málnytu á vor að þessi leigu þeim er þurfa og skynsömum mönnum virðast óhættir skuldunautar, utan slíkt sem hver vill hafa sjálfur að sínu búi.

16. Hér segir hversu leigufé skal ábyrgjast

Nú selur maður kýr á leigu eður annað búfé, þá skal sá ábyrgjast við öllu er hefir, nema við bráðasótt og lungnasótt, kelfing eður lambburð, aldri eður lýstur reið, og þó að alla ábyrgð skili þeim á hendur er leigir, þá skal það eigi haldast. En ef kýr eður kúgildi deyr fyrir fátækum manni, þá gjaldi hann á þrimur árum verðið eftir því sem sex skynsamir menn meta, en öngva fémissu með. Engi maður skal kú eður annað kvikfé leiga lengur en lifir, nema sjálfur hann drepi, eður þeir menn er hann á að halda orði eða eiði fyrir, eður þeir menn er hann býður um. Nú skal hann kú hafa að leigumála réttum til fardaga að öðru vori, nema þeir hafi annan máldaga á gjörvan sín í milli þá er hann tók kú. Nú er sú kýr dauð en hann átti veð í annarri, þá skal hann þá hafa fyrir sína kú, því að kýr skal í kýrstað koma jafnan. En ef sú lifir er hann á, þá skal hann þá hafa þó að sú sé ellri en lagagjald. En ef lestir eru á orðnir þó að horn brotni eður hali slitni, þá skal hann þá löstu bæta eftir lögum. Nú vill hann kú eigi lengur leiga, þá skal hann hitta þann mann er kú á ef hann er innan héraðs og bjóða honum kú við votta. En ef hann er utan héraðs, þá skal hann færa kú heim og leiða menn til að sjá og meta kú að hon er heil og hinum tæk er á, og segi þá af sína ábyrgð og veiti vörð sem sínum nautum og þiggi nyt af, og hafi það fyrir gras og gæslu og ábyrgist við handvömmum sínum einum. Nú er sá af landi farinn er kú átti og hefir manni boðið um fjárhald sitt, þá á hann honum kú að bjóða ef hann er innan héraðs en erfingja ef eigi er umboðsmaður til, ef hann vill eigi lengur leigt hafa. Svo skal fara um annað leigufé sem um kýr skilur. Nú drepur maður viljahendi leigufé utan orlof þess er á, bæti hálfri mörk fyrir kúgildi hvert eftir réttri tiltölu, hvort sem er meira eður minna, hafi það hálft konungur en hálft sá er leigufé átti og sæki sem vitafé, og hafi eigandi fullar leigur á því fé sem lifanda væri.

17. Hér segir við hverja fúlgufé skal ábyrgjast

Nú felur maður búfé sitt inni með manni að fúlgumála réttum, þá skal hann ábyrgjast við handvömmum sínum öllum. Það eru handvömm hans ef hann sveltir eða drepur, eður þeir menn sem hann skal orði eða eiði fyrir halda, og svo ef hans fjárhaldsmaður hittir eigi fyrr en önd er úr eður fellur fyrir berg og fylgir eigi féhirðir, en ef hann sýnir það fé áður húð er af flegin og fylgir höfuð, þá er það eigi handvömm hans. Það eru handvömm hans ef drukknar í brunni eður kyrkir klafi. En ef hes er í bandi og renni staur fyrir, það eru eigi handvömm hans. Það eru handvömm hans ef af megri verður dautt. Nú skal hann fæða fé til krossmessu á vorið, þá skal hann hitta þann er fé á og bjóða honum að taka við fé sínu, og sýni honum að fært er að mat sér og segi af sína ábyrgð. Nú tekur maður hross á fúlgu eður bit, þá á hann að ábyrgjast við handvömmum sínum. En það eru handvömm hans að grannar hans virða til þess og vilja það með eiði sínum sanna, nema hann segi það þá er hann tók að hann vill að öngu ábyrgjast. Nú tekur maður naut á fóður og skal hann svo ábyrgjast sem fúlgunaut. Það skal maður eigi ábyrgjast þó að kýr fái eigi kálf ef hann hefir griðung með nautum sínum.

18. Hér segir hvað löggild kýr er

Nú hefir maður kú mælta í skuld sína þá er hvorki skerði verð né leigu, þá skal sú vera eigi ellri en átta vetra og eigi yngri en að öðrum kálfi, heil og heilspenuð, og hafi kelft um veturinn eftir Pálsmessu og slík að öðru sem fyrr segir. Nú kaupir maður að manni hross eður naut eður annað búfé, þá er þess ábyrgð á er keypt hefir þegar hann fer í brott með. Kvikfé allt það er maður selur öðrum, þá skal engi svik selja né meður leynandi löstum. Það er leynandi löstur á hrossi ef það er dauft, blint, kviðdrag, vanhelti, stjarft, statt. En á öðru kvikfé ef það drekkur sig sjálft. Sá skal sverja er seldi að hann vissi eigi leynandi löstu á eður hafa sjálfur ella ef hinn finnur á fyrsta mánaði.

19. Hér segir ef maður kaupir ósénan grip

Nú kaupir maður grip ósénan að manni, þá er þess ábyrgð á er seldi þar til að þeim kemur í hönd er keypti eður þeim er hann bauð um fyrir vottum við að taka, nema þeir skili öðruvíss fyrir vottum.

20. Hér segir um þá gripi er eigi má skipta

Alla þá gripi er menn eiga saman, hvort sem það er akur eða hús eður teigar, eður aðra hluti þá er skipti má á koma, þá skal sá skipti ráða er skipta vill, sem segir í eignarskiptum. En þar sem tveir menn eður fleiri eiga einn grip saman þann er eigi fær skipti á komið, svo að eigi verði skaði að, þann er annar vill gagn af hafa, en annar órækir eður vill eigi gagn af hafa, bjóði þeim fyrst er til móts á við hann. Nú vill sá eigi kaupa, þá hluti hvor kaupa skal og leysi sá er hlýtur sem skynsamir menn meta. Nú vilja þeir eigi leysa þá seli hverjum er hann vill og lúki þeim sinn hluta verðs. Vilja þeir eigi við taka, þá hafi að ósekju þar til er hinir heimta og ábyrgist sem sitt fé. Engi skal annars selja framar en í lögum er mælt.

21. Hér segir um ábyrgð á lánsfé

Sá skal lán ábyrgjast er léð er og koma heilu heim. En ef hann vill það eigi, þá sæki sem vitafé. En það er allt vitafé er vottar vitu. Og svo allt það er dómur dæmir manni eður lögmaður segir á hendur manni meður lögligum lagaúrskurði að gjalda öðrum. Nú lér maður eður selur það er honum var léð og misfer með, þá skal eigandi heimta að hvorum sem hann vill, þeim er seldi eða hinum er keypti, og svo skal hvervetna þar sem maður selur eða lér annars eign.

22. Hér segir um veðgripi

Nú leggur maður öðrum manni veð fyrir einnhvern hlut, þá skal sá ábyrgjast veð er tekur. En ef þeir hafa gjört eindaga til nær út skal leysa, þá skal hann bjóða honum eður hans umboðsmanni í eindaga og hafa votta við. En ef sá leysir eigi út, gjöri hvort er hann vill að skynsamra manna virðingu, hafi sjálfur eður seli öðrum, hafi sá skuld sína er veð tók en hinn það sem að auk er. Nú er eigi eindagi á settur, leysi innan tólf mánaða eða fari sem fyrr skilur. Nú á maður fé að heimta að öðrum manni og tekur veð fjár síns í einshverjum grip, hvort sem það er í jörðu eður öðru fé, þá skal það veð virða. Nú selur maður veð í brott öðrum manni, þá skal sá hafa votta til veðs síns er veð átti og hafi leyst út á fyrstum tólf mánuðum ef hann er innan héraðs. En ef hann er utan héraðs, þá skal hann hafa leyst innan tólf mánaða er hann kemur í hérað, nema nauðsynjar banni þær sem í lögum eru taldar. Vitni skal hann hafa til þess að þær sé sannar, ella á hann þess máls aldri uppreist. Nú selur maður tveimur mönnum eitt veð, þá á sá veð að hafa er fyrri tók en hinum veðfox er síðar tók ef það vitu vottar.

23. Hér segir um skuldskeytingar lögligar

Nú heimtir maður skuld að manni ef hann er innan héraðs og skuldskeytir hann við annan mann, þá hefir hann lokið þeirri skuld sér af hendi ef þar eru vottar við að hinn tók þann skuldarstað, ef sá vill játa er lúka skal. En eigi er hann skyldur að gjalda öðrum en þeim er fyrst átti fé að honum, nema hann sé utan héraðs eður eigandi hafi áður heimt í réttan gjalddaga og fengið eigi, þá á sá er síðar tók þá skuld að kaupi eður gjöf og er réttur heimtandi þess fjár og eignarmaður ef hann hefir löglig vitni til að hann heimilaði honum það fé, og er hinn þá við skildur. Með handsölum skal jarðir byggja og í borgan ganga. Svo og ef maður fær manni lögligt umboð til að heimta fé sitt svo til komið sem fyrr segir, þá skal gjaldandi umboðsmanni svara og lúka það fé, en eigi eiganda, nema hann hafi með vitnum sjálfur aftur tekið af honum það umboð.

24. Hér segir hverjum kaupum konur eiga að ráða

Ómagi má engum kaupum ráða. Það skal og vita hversu miklum kaupum konur megu ráða. Bóndakona eyris kaupi á tólf mánuðum. Riddarakona tveggja aura kaupi. Lends manns kona hálfrar merkur kaupi nema bóndi hennar sendi hana til skipa að kaupa þeim báðum þarfindi, þá skulu haldast kaup hennar öll ófölsuð og það allt er hon þarf í bú að kaupa ef bóndi hennar er í brottu, hvort sem hann er innan lands eður utan. En jarðir skal hon öngvar selja. En ef kona kaupir annan veg, þá skal hann rjúfa á fyrsta mánaði forfallalaust er hann kemur heim og hann veit, ef honum þikkir hon ofkeypt hafa, ella á hann þess máls aldri uppreist.

25. Hér segir um verkmannakaup

Nú kaupir maður verk að frjálsum manni með handsölum, þá skal það allt haldast sem þeir verða ásáttir. En ef bóndi vill eigi halda mála við leigumann sinn og vísar honum úr vist, þá skal hann krefja meður votta vistar sinnar og bjóða verk sín slík sem þeir urðu ásáttir. En ef bóndi vill eigi við honum taka, þá er hann sekur hálfri mörk við konung. En hinn skal hafa kaup sitt og matarverð það sem óneytt er. Ef leigumaður vill eigi halda kaup sitt og mála við bónda, þá skal bóndi krefja hann verka slíkra sem hann handsalaði honum og bjóða honum vist með vottum. En ef hann vill það eigi, þá er vinnumaður sekur hálfri mörk við konung og á þó bóndi að heimta að honum slíkt sem hann skyldi reiða honum, en matarverð fær hann ekki því að hinn hafnaði því sjálfur. Nú tekur leigumaður á hönd sér eins manns verk og getur eigi unnið, þá skulu sex menn meta hvert leigufall það skal honum verða. Ef maður tekur vísvitandi annars vinnumann, sekur hálfri mörk við konung. Ef verkmaður liggur sjúkur þrimur náttum lengur um heyannir, en hálfan mánað utan heyanna, og meti skynsamir menn hvert leigufall það er, nema hann hafi ákvæðisverk, þá gelst eigi leiga fyrir það er óunnið er. En bóndi skal halda honum kost sem áður er skilt. En ef maður liggur lengur, þá skulu skynsamir menn meta verkatjón hans og mat þann er hann neytir, ella færi á hendur frændum. Eigi er lagakaup við verkmenn nema með vitnum og handsölum.

26. Hér segir um stikur og mælikeruld

Svo er mælt að menn skulu eigi hafa ranga stiku, pundara né mælikeruld. En sá er réttur pundari er tuttugu merkur sé í fjórðung hvern og megi á vega tvær níu fjórðunga vættir, en eigi meira, og rísi að fjórðungi. Sá er annar pundari er rísa skal að hálfri mörk og eigi meira á vega en hálfan annan fjórðung, það skal vera tungupundari. Stika skal sú vera að tvær álnar geri stiku, sem verið hefir að fornu. En þessi skulu vera mælikeruld til búnytjar og til þeirra hluta sem í keruldum skal mæla. Er það fyrst búskjóla er í liggur hálfur annar fjórðungur, það er fjórðungur er gerir að vog tuttugu merkur rúgar og hrista tysvar í keraldi og draga tré yfir. Kvenaskar eru fjórir í fjórðungi, hálfur annar kvenaskur í karlaski, skulu þessir pundarar og mælikeruld liggja á Þingvelli undir lögmanns lási, skal þar eftir hver sýslumaður rétta sína pundara og stikur og mælikeruld. En bændur í hvers þeirra sýslu marki eftir þeirra pundurum, stikum og mælikeruldum. En hver sem eitthvert í þessarri grein hefir rangt, sekist mörk við konung ef hann veit það og hafi hann mátt eftir sýslumannspundara marka eður stiku. En eigi eru allir bændur skyldir mælikeruld að eiga. Björgynjaraskur mótmarkaður skal ganga hér til lýsis og hunangs, og sá sem lögmaður lætur þar eftir gera. En hver sem í röngum aski mælir, svari fullri sekt sem lögbók vottar, en hinum fyrir skaða sinn er síns missti rangliga. Einar vogir og ein mælikeruld skulu ganga um allt land. Ef maður verður sannprófaður að því að hann stikar rangt með réttri stíku eður vegur rangt með réttum vogum eða mælir rangt með réttum mælikeruldum og verður það eyris skaði, svari slíku fyrir sem hann hefði stolið jafnmiklu.