Fara í innihald

Jónsbók (2004)/Kristinn réttur og konungserfðir

Úr Wikiheimild

Hér hefur upp annan hlut lögbókar er heitir kristinn réttur og segir fyrst um kristiliga trú og þar næst hverja hlýðni menn eiga að veita konungi sínum og byskupi

1.

Það er upphaf laga vorra Íslendinga sem upphaf er allra góðra hluta að vær skulum hafa og halda kristiliga trú. Vær skulum trúa á einn guð föður allsvaldanda, skapara himins og jarðar. Vær skulum trúa á drottin vorn Jhesum Christum, hans einkason, er getinn er af helgum anda og fæddur af Marie mey, píndur undir Pílats valdi, krossfestur, deyddur og grafinn, fór niður til helvítis og leysti þaðan alla sína vini. Þriðja dag eftir er hann var deyddur sínum manndómi, ósköddum sínum guðdómi, reis hann upp af dauða og var síðan með sínum lærisveinum fjörutíu daga, frá páskadegi til uppstigningardags, og steig þaðan til himna. Og þaðan skal hann koma á efsta degi þessa heims að dæma lifendur og dauða, hvern eftir sínum verðleikum. Vær skulum trúa á helgan anda, að hann er sannur guð sem faðir og son, og þær þrjár skilningar er einn guð. Vær skulum trúa því er trúir öll kristilig þjóð og heilagra manna samband og heilög kirkja hefir samþykkt með óbrigðiligri staðfestu. Vær skulum trúa að syndir fyrirgefast með skírn og skriftagangi, holdi og blóði vors drottins er í messum helgast, með bænahaldi og ölmusugerðum og föstum, og með öllum góðum hlutum er menn gera, hugsa og mæla. Vær skulum trúa að hvers manns líkami er í er kominn heiminn eða koma kann til dómsdags skal þá upprísa. Og þaðan af skulu þeir sem illa gjörðu og eigi iðruðust þessa heims hafa endalausan ófagnað með fjandanum og hans örindrekum í helvíti. En þeir sem gott hafa gjört þessa heims skulu þá hafa eilífan fagnað með guði og hans helgum mönnum í himinríki.

2. Hér segir hversu konungur og byskup eiga að geyma sitt vald

Nú með því að guðs miskunn sér til þess þörf hversdagliga ótalligs lýðs og ýmissligs fjölmennis, þá hefir hann skipað sínum tveimur undirmönnum og þjónum að vera auðsýniliga hans umboðsmenn að halda þessa heilaga trú og hans heilagt lögmál, góðum mönnum til verndar og réttinda en vondum mönnum til refsingar og hreinsanar. Eru þessir tveir annar konungur en annar byskup. Hefir konungur af guði veraldligt vald til veraldligra hluta en byskup andligt vald til andligra hluta, og á hvor þeirra að styrkja annan til réttra mála lögliga og kennast við sig að þeir hafa vald og yfirboð af guði sjálfum en eigi af sér. Og fyrir því að þeir eru guðs umboðsmenn, hins og annars, að þeirra má öngvan veg missa, þess hins þriðja að guð virðist að kalla sig þeirra nöfnum, þá er sá sannliga í miklum háska við guð er þá styrkir eigi með fullkominni ást og góðvilja og réttvísi til síns valds, þess er guð hefir þeim gefið, þar sem þeir bera svo mikla áhyggju fyrir fólkinu og ábyrgð fyrir guði, allra helst þar sem lögin votta svo með stöddum endimörkum að hvorki mega höfðingjarnir ef þeir geyma þeirra að ánauðga eður þröngva fólkinu með ofmikilli ágirnd. Og að eigi megi fávitrir menn synja höfðingjum réttrar þegnskyldu fyrir þrjósku sakir og skammsýnnar óvisku.

3. Hér segir um lýðskyldu við konung

Nú af því að landsfólkið á mikla lýðskyldu að veita konunginum, þá væri það þarfligt að menn varaðist þá miklu villuþoku er mestur hluti Noregs fólks hefir blindað verið svo hörmuliga að í öngu landi öðru finnast dæmi til, þar sem teknir hafa verið ýmsir menn og kallaðir konungar rangliga í móti réttum konungum og lögum hins heilaga Ólafs konungs og öllum þeim réttindum sem hver bóndi vildi una af öðrum um sínar erfðir, og þjónuðu oft velbornir menn þeim er varla máttu vera þeirra knapar, sem enn vottar í dag, hvort þeir misstu fleiri óðala sinna eða hinir sem þeir kölluðu konunga sína, og svo hið sama um manna missurnar. Nú að menn þurfi eigi griplandi hendi eða leitandi eftir að fara hver að réttu á konungur að vera að Noregi eftir lögum, þá sé það kunnigt öllum Norðmönnum að Magnús konungur, sonur Hákonar konungs, staðfesti svo og lét í bók setja á Frostuþingi hver að réttum erfðum á að vera Noregs konungur eftir lögum hins heilaga Ólafs konungs, og því játuðu og samþykktu Noregs menn fyrir sig og sitt afspringi við Noregs konung og hans afspringi meður réttu þingtaki að þessi skipan skal standa ævinliga sem þá var gjör og hér fylgir.

4. Hér segir hver Noregs konungur skal vera

Í nafni föður og sonar og heilags anda, eins guðs í þrenningu, skal einn þjónn hans konungur yfir öllu Noregs veldi innan lands og svo skattlöndum.

Hér hefur hina fyrstu Noregs konungs erfð.

Nú eftir fráfall konungs vors, þá er sú hin fyrsta Noregs konungs erfð að sá skal konungur vera yfir Noregs konungs veldi sem konungs son er skilgetinn hinn ellsti einn.

Hér hefur aðra Noregs konungs erfð.

Sú er önnur erfð að sá sonarson konungs sem skilgetinn er skal konungur vera hinn ellsti einn sem faðir hans er skilgetinn.

Hér hefur þriðju Noregs konungs erfð.

Sú er hin þriðja erfð er bróðir konungs skilgetinn hinn ellsti einn skal konungur vera, sá sem samfeddur er við konung, ef enginn er hinna til sem áður eru taldir.

Hér er hin fjórða konungs erfð.

Sú er hin fjórða erfð er föðurbróðir konungs samfeðri og skilgetinn hinn ellsti einn skal konungur vera sá sem faðir hans var skilgetinn.

Hér byrjar fimmtu konungs erfð.

Sú er hin fimmta erfð er bróðurson konungs skilgetinn hinn ellsti einn skal konungur vera, sá er faðir hans var skilgetinn og samfeðri við konung, ef enginn er hinna til.

Hér byrjar séttu konungs erfð.

Sú er hin sétta erfð að bræðrungur konungs hinn ellsti einn skal konungur vera, sá sem faðir hans var föðurbróðir konungs samfeðra og skilgetinn, ef enginn er hinna til.

Hér segir af sjaundu konungs erfð.

Sú er hin sjaunda erfð að konungs son skal konungur vera hinn ellsti einn þó að hann sé eigi skilgetinn, sá þó að hvorki sé getinn í hórdómi né frændsemissspellum eður sifjaspellum, og konungur sjálfur hefir við gengið faðerni hans og sagt sjálfur skilríkum mönnum ávæni til fyrir samvistu sinnar sakir og móður hans, og svari sú stund er barnið var fætt þeirri tiltölu sem til hæfir og hefir móðirin ekki tvennt til sagt faðernis að því barni eftir því sem lögbók vottar um slík mál. Þessu skulu þeir sem vitu eigi leyna yfir mánað nema þeir óttist ofríki, þá skulu þeir þó til þessa segja einhverjum skilríkum manni eða fleirum, svo að þeir megi þar vitni um bera.

Hér greinir áttundu konungs erfð.

Sú er hin átta erfð að dótturson konungs skilgetinn hinn ellsti einn skal konungur vera, sá sem móðir hans var skilgetin, ef enginn er hinna til.

Hér skýrir níundu konungs erfð.

Sú er hin níunda erfð að systurson konungs skilgetinn hinn ellsti einn skal konungur vera, sá sem móðir hans var samfeðra við konung og skilgetin, ef enginn er hinna til.

Hér vottar um tíundu konungs erfð.

Sú er hin tíunda erfð að sá skal konungur vera hinn ellsti einn er næstur er eftir bræðrasyni við konung skilgetinn, og væri faðir hans skilgetinn og kominn frá samfeddum bræðrum og skilgetnum, ef enginn er hinna til.

Hér segir um elliftu konungs erfð.

Sú er hin ellifta erfð að sá skal konungur vera hinn ellsti einn skilgetinn er systkinason er við konung og kominn frá þeim systkinum er bæði voru samfeðra og skilgetin og af réttri konungaættinni komin, ef engi er hinna til sem áður eru taldir.

Hér greinir tólftu konungs erfð.

Sú er hin tólfta erfð að sá skal konungur vera hinn ellsti einn skilgetinn er systrungur er við konung og mæður þeirra voru samfeðra og skilgetnar og af réttri konungaættinni komnar, ef enginn er hinna til.

Hér skýrir hina þrettándu konungs erfð.

Nú ef enginn er þessara til sem áður eru taldir, þá skal sá konungur vera yfir Noregi hinn ellsti einn er erfðum er þá næstur, eftir því sem landslagabók vottar í almenniligu erfðatali, karl en eigi kona, og þó af réttri konungaættinni kominn.

5. Hér segir hversu konung skal taka ef engi finnst í konunga erfðum

Nú ef svo þungliga kann að berast að enginn er þessarra til, þá sé sjálfstefnt hertoga ef hann er til eður jarli, byskupum öllum og ábótum, barónum öllum og hirðstjórum með hirð allri að sækja norður til Niðaróss til hins heilaga Ólafs konungs til umráða við erkibyskup. Og nefni hver byskup úr sínu byskupsdæmi og sýslumenn konungs, þar sem þeir eru, tólf hina vitrustu menn með sér eftir sinni samvisku, og sé á för innan þess mánaðar er þeir spyrja fráfall konungs. Svo skal og hver byskup og sýslumaður skipa til hegningar að gæta lands með bóndum fyrir þjófum og illþýði, svo marga af barónum og sýslumönnum í hverjum lögum sem þeir sjá að best hæfir. Skulu þeir er eftir sitja jafnheimilir til gæslu svo yfir öðrum sýslum sem sjálfra sinna, ella eru þeir sannir landráðamenn, ef eigi heldur landið friði sínum fyrir þeirra vangæslu. En í þann tíma sem þeir eru norður komnir er til þess eru nefndir, þá gangi ólærðir menn með svörðum eiði til þess umdæmiss að þeir skulu þann til konungs taka er þeim sýnist fyrir guði að best sé til fallinn. En þenna eið skulu jafnvel byskupar ábyrgjast við guð, þó að þeir sveri eigi, sem hinir er eið vinna hinir ólærðu menn, að þeir byskuparnir leggi sannindaumræði til þessa máls svo sem guð gefur þeim vit til réttligast fyrir að sjá. En ef þá skilur á, þá skulu þeir ráða sem fleiri eru saman og skilríkari, og erkibyskup og aðrir byskupar fylgja, og sanna það með eiðum sínum. Nú ef nökkur lætur sig öðruvíss til konungs taka en nú var mælt, þá hafi hann fyrirgjört fé og friði, landi og lausum eyri, og sé í páfans banni og forboði allra heilagra manna, og sé eigi að kirkju græfur, og svo hver er honum fylgir til þess. Nú ef hirðstjórar eða hirðmenn fyrirnemast þessa ferð, þá eru þeir landráðamenn við konung nema full nauðsyn banni. En hver bóndi er fyrirnemst þessa ferð, þá er sá sekur átta örtugum og þrettán mörkum silfurs við konung. En konungur meti nauðsynjar með hinna bestu manna ráði. En þessa ferð fari hver á sínum kostnaði en konungur inni þeim fyrir kostnað sinn sem eigi hafa áður konungs fé.

6. Hér segir um erfðir konungs frænda

En ef dóttir eður sunardóttir, systur eða móðir eður þær konur aðrar sem standa í erfðatali í landslagabók, svo þeir karlmenn sem í erfðatali standa og eigi eru af konungaættinni komnir, og eru þeir eða þær nær meir að skyldu til annars arfs en konungdómsins eftir því sem almenniligt erfðatal vottar, þá skal eftir því hver til ganga sem honum votta lög í almenniligu erfðatali. Og að því ljósara verði, þá megu þeir þetta fyrst erfa. Eignir þær allar sem konungur erfir eftir aðra frændur sína og þær sem hann kaupir með lausafé, þær þó að hann seli ekki konungdómsins jarðir til eður skiptir þeim í hinar. Svo skulu þau og erfa lausafé og gripi þá er eigi heyra krúnunni til, nema konungur hafi aðra skipan á gjört fyrir skilríkum mönnum með vitnum og jartegnum sér til sáluhjálpar eða sæmdar, eður sínum hollustum mönnum með góðra manna tillögu. Og er það höfuðráð að hver búi vel fyrir sér sjálfur um sína daga, heldur heill en sjúkur, því að váskeytt er annars vinátta og eftirgjörð þó að allskylt sé um. Finnast og fleiri dæmi til þess að erfingjar hafa heldur af dregið en við aukið þeirra skipan sem féið áttu og fengu oftliga með hollri þjónustu eður lífsháska, eða miklu erfiði og mannraunum.

7. Hér segir um trúlofan konungs við þegna sína

En að konungur viti sig því heldur skyldugan við þegna sína lög að halda og um að bæta, þá skal hann þessu játa fólki sínu með fullri staðfestu eftir það er hann er til konungs tekinn: Það játi eg guði og hans helgum mönnum, og því hans fólki sem eg er óverðugur yfirskipaður, að eg skal þau kristin lög halda sem hinn heilagi Ólafur konungur hóf og aðrir hans réttir eftirkomendur hafa nú samþykkt millum konungs og þeirra sem landið byggja, með hvorra tveggju samþykki, og með góðra manna ráði umbæta eftir því viti sem guð lér mér. Er konungur eigi aðeins skyldur lög að halda við þá þegna sína sem þá eru á þingi hjá honum, heldur við alla þá sem í hans þegnskyldu eru, alna og óborna. En þann tíma sem hann verður kórónaður, þá skal hann sverja mönnum lög og réttindi með þeim eiðstaf sem konungsvígslu fylgir.

8. Hér segir eiðstaf hertoga og jarls

En hertogi eða jarl, ef þeir eru til, skulu þenna eið sverja á því þingi er konungi er konungs nafn gefið: Þess legg eg hönd á helga dóma, og því skýt eg til guðs, að eg skal vera hollur og trúr mínum herra N. Noregs konungi, bæði leyniliga og opinberliga. Og það lén sem konungur veitir mér skal eg trúliga halda meður þeirri hlýðni og eftirlæti sem Magnús konungur, son Hákonar konungs, skipaði milli konungs og hertoga eður jarls. Veita skal eg honum alla þá hlýðni sem góðum hertoga eður jarli ber góðum konungi. Styrkja skal eg hann og hans ríki, bæði með heilum ráðum og öllum mínum styrk. Halda skal eg og eiða þá alla sem konungurinn hefir játað öllu landsfólki eftir því viti sem guð lér mér. Guð sé mér svo hollur sem eg satt segir, gramur ef eg lýgur.

9. Hér skýrir lendra manna og hirðstjóra eiðstaf

Nú skulu lendir menn og hirðstjórar þenna eið sverja: Þess legg eg hönd á helga dóma, og því skýtur eg til guðs, að eg skal vera hollur og trúr mínum herra N. Noregs konungi, bæði leyniliga og opinberliga. Styrkja skal eg hann og hans ríki, bæði með heilum ráðum og öllum styrk mínum. Halda skal eg eiða þá alla sem konungurinn hefir játtað öllu landsfólkinu eftir því viti og skynsemd sem guð gefur mér. Guð sé mér hollur ef eg satt segi, gramur ef eg lýgur.

10. Hér greinir lögmanna eiðstaf

Nú skulu lögmenn þenna eið sverja þann tíma er konungur vill: Til þess leggur eg hönd á helga bók og því skýt eg til guðs, að eg skal vera hollur og trúr mínum herra N. Noregs konungi. Þau lög skal eg segja þeim mönnum sem minn herra skipar í mína lögsögn sem hinn heilagi Ólafur konungur hóf og aðrir hans réttir eftirkomendur hafa samþykkt við þá er landið byggja. En hvervetna þar sem lögbók sker eigi skilríkliga úr, þá skal eg eftir því hvers manns mál dæma sem eg vil andsvara fyrir guði á dómadegi að réttligast sé eftir minni samvisku, og þó með þeirra vitrustu manna ráði og samþykki sem þá eru í hjá mér, svo um ríkan sem um fátækan, ungan sem um gamlan, sakaðan sem um sifjaðan, skyldan sem um óskyldan. Svo sé mér guð hollur sem eg satt segir, gramur ef eg lýgur.

11. Hér segir bónda eiðstaf

En að bændur og alþýða viti sig því skyldari til hollustu og þegnskyldu og hlýðni við konung, þá skulu þeir þenna eið sverja konungi, svo margir menn af hverju fylki sem honum líkar: Til þess legg eg hönd á þessa helga dóma, og því skýtur eg til guðs, að eg skal vera hollur og trúr mínum herra N. Noregs konungi, bæði opinberliga og leyniliga, með öllum mínum mátt og megni, svo sem góður þegn skal góðum konungi. Veita skal eg honum alla lögliga þjónustu og rétta þegnskyldu eftir lögum og þeim hlunnindum sem hinn heilagi Ólafur konungur skipaði milli konungs og bónda og þeirra manna sem landið byggja, með hvorra tveggju samþykki. Svo sé mér guð hollur sem eg satt segir, gramur ef eg lýgur. Ábyrgi eg mér þenna eið og öllum þeim sem í Noregs konungs ríki eru, ölnum og óbornum, og konungs eiðs eigu að njóta. Eru eigi aðeins þeir skyldir að ábyrgjast þenna eið er sverja, heldur allir þeir sem í konungs þegnskyldu eru, alnir og óbornir. Svo eru og allir menn í landinu skyldir til trúleiks við konung sinn, þó að eigi sveri honum allir trúnaðareiða á þingi, því að Noregs konungur er jafnskyldur að fylgja þeim til réttra mála sem heima eru sem þeim er þá eru hjá honum á þingi er hann trúlofar eður sver lög og réttindi að halda og dæma þegnum sínum. Það vitu og allir menn að það barn sem fætt er á síðasta degi eður ári konungs ævi, að konungur er jafnskyldur því rétt að gjöra sem þeim er honum sór eið á fyrsta þingi. Svo eru honum allir skyldugir til allrar lögligrar þegnskyldu þeir sem laga vilja njóta og þeirra vilja verðir vera. En konungur og byskupar, lærðir menn og barónar, og alþýða með þeim, skal fylgja hinum heilaga krossi og helgum dómum aftur til kirkju. Síðan skal konungur ganga til altaris og taka þar blessan og gangi síðan til herbergiss og fylgi honum allir hinir bestu menn.