Konuríki

Úr Wikiheimild

Konuríki (eða Það var eina vökunótt) er norrænt danskvæði, vikivaki eða sagnadans.


Útgáfa Guðfinnu Þorsteinsdóttur (Skáld-Erlu) frá Skjögrastöðum:

1. ÞAÐ VAR eina jólanótt/vökunótt
að haninn tók að gala
húsfrú vakti bónda sinn
og sagði mál að mala
-því trúi ég hann sofi lítið.


2. En er hann hafði malað
tuttugu tunnur korns
tók hann sér þá hríslukvist
og tók að kynda ofn
-því trúi ég hann sofi lítið.


3. En við hverja hrísluna sem
í ofninum brann
tók hann sér þar snældutein
settist niður og spann
-því trúi ég hann sofi lítið.


4. En er hann hafði spunnið
á teinana tvo
tók hann sér þá fatabagga
gekk til lækjarfor
-því trúi ég hann sofi lítið.


5. En er hann hafði þvegið
og gert allt hreint
tók hann sér þá staf í hönd
og gekk til húsa beint
-því trúi ég hann sofi lítið.


6. Stattu upp húsfrú mín
nú er þín stofan hrein
hvort viltu heldur ég leiði þig
eða þú gangir ein?
-því trúi ég hann sofi lítið.-


7. Eigi þarftu herjans son
að tala við mig svo mjúkt
ekki þarftu að leiða mig
sem legi hafi ég sjúk
-því trúi ég hann sofi lítið.


8. Haltu upp tjaldinu
meðan ég geng inn
falli dust á klæði mín
þá slæ ég þig pústur á kinn
-því trúi ég hann sofi lítið.


9. En fyrir framan stofudyr
þar voru göngin þröng
húsfrú lamdi bónda sinn
með átján álna stöng.
-því trúi ég hann sofi lítið.


10. Níu á ég hænsni
út undir vegg
engan skaltu matinn fá
fyrr en þau eiga egg
-því trúi ég hann sofi lítið.


11. Hér koma að þeir tíðamenn
og henda að því gaman
að bóndinn hleypur um allan garð
að reka hænsnin saman
-því trúi ég hann sofi lítið.


12. Bóndinn ofan um mýrar hleypur
og týnir eggin saman
Úti standa grannar hans
og henda að honum gaman
-því trúi ég hann sofi lítið.


Elsta íslenska gerð af Konuríki:


1. Það var einn myrgin,
að haninn tók að gala,
húsfreyja vakti bónda sinn
og sagði mál að mala.
-því trúi ég hann sofi lítið.


2. Þegar hann hafði malað
heila tunnu korns
þá tók hann sér hríslukvist
og kynti ofn.
-því trúi ég hann sofi lítið.


3. Glaðlegana eldur
í ofni brann,
bóndi tók þá snældu sína,
settist niður og spann.
-því trúi ég hann sofi lítið.


4. Þegar hann hafði spunnið
tímana tvo
þá tók hann sinn fatabagga
og fór til ár að þvo.
-því trúi ég hann sofi lítið.


5. Þegar hann hafði þvegið
og gjört fötin hrein
þá tók hann sinn fatabagga
og fór til hallar heim.
-því trúi ég hann sofi lítið.


6. Hreinsar hann stofuna
og sópar hann gólf.
allt hafði hann þetta unnið
áður en rann upp sól.
-því trúi ég hann sofi lítið.


7. „Stattu upp, Ingigerður,
nú er stofan hrein.
Hvort viltu heldur ég leiði þig
eður gengur þú ein?
-því trúi ég hann sofi lítið.


8. „Ekki þarftu bóndalyrfa,
að vera svo stimamjúkur,
þú mundir ekki leiða mig
hefði ég verið sjúk.
-því trúi ég hann sofi lítið.


9. Haltu upp tjaldinu
meðan ég geng inn.
falli duft á höfuð mitt
þá færðu á kjaftinn þinn."
-því trúi ég hann sofi lítið.


10. Hann hélt upp tjaldinu
meðan hún gekk inn,
hún sló honum hengipústur
undir hvörja kinn.
-því trúi ég hann sofi lítið.


11. Húsfreyja á palli situr
og terrir fótinn fram,
bóndi innar við ofninn stendur
og strokkar sem hann kann.
-því trúi ég hann sofi lítið.


12. Húsfreyjan á palli situr
og kembir hár úr lokki,
bóndinn innar við ofninn stendur
og tekur smjör af strokki.
-því trúi ég hann sofi lítið.


13. Bóndinn upp á ofninn fór
og átti að sækja salt,
greip hann ofan í öskupoka
og skemmdi smjörið allt.
-því trúi ég hann sofi lítið.


14. Húsfreyjan af palli stökk
í mikilli mannaþröng,
braut hún á honum bónda sínum
bullustöng.
-því trúi ég hann sofi lítið.


15. Húsfreyjan af palli stökk,
mikið var þá þjark,
braut hún á honum bónda sínum
birkiraft.
-því trúi ég hann sofi lítið.


16. Í óvit féll hann bóndi
hin vesæli mann
húsfreyjan á tók sér drykkjarask
og dreypti yfir hann.
-því trúi ég hann sofi lítið.


17. „Tólf á ég hænsnin
út undir vegg,
aldrei skaltu matinn fá
fyrr en þau eiga egg."
-því trúi ég hann sofi lítið.


18. Bóndinn ofan í mýrar hleypur
og tínir eggin saman
úti standa grannar hans
og henda að honum gaman.
-því trúi ég hann sofi lítið.