Kvæði fallegt útlenzkt

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
1. Hug vekur minn
hvert og eitt sinn
háa daga sem nætur,
eg með mér finn,
sem eingum inn’,
umfaðmast hyggju rætur.
2. Eg reista vítt
um hauðrið hvítt,
hjá mörgum fyrst ókendur;
leit þar alltítt
fólkið vel frítt,
hjá frómum varð innlendur.
3. Einn fagran lund
eg fann um stund
frjófgaðan blómstrum góðum,
vaxinn á grund
með grænan mund;
geðfeldur var sá þjóðum.
4. Ungviðargrein
upprunnin ein
á var þeim skógarlundi,
heilnæm og hrein,
hindrandi mein,
hverjum þeim kjósa mundi.
5. Sú stóð með glöð,
blómvaxin blöð
blíðra ilmandi rósa,
í sinni röð
sýnandi hröð
sólbjarta geisla ljósa.
6. Á góðri rót
fest hafði fót,
frjófgan bar margra gæða;
hennar hýr hót
hug mæddu fljót,
harmþrúngna kann að græða.
7. Ávöxtur sá,
sem eg nam tjá,
áður sagða rós prýðir;
dygð marga má
sæmdríka sjá
sérhver, er henni hlýðir.
8. Kærleika, frið,
fögnuð og grið,
fastheldin þolinmæði,
blíðlyndissnið,
hreint hreinlífið,
hógværð, trú, góðgirnd bæði.
8. Þetta er það
þar fylgist að,
þvílík blómstur vel skarta.
Framar en kvað,
fest hafði stað
ferskrar meyjar í hjarta.
10. Mjög stutta stund
það spektar sprund
spakt eg við ræða mátti.
Mín hugarlund
hjá gullhlaðs grund
gistíngu leingri átti.
11. Slíkt hrygðar él
mitt þvíngar þel
þig við þá [hlaut] eg skilja.
Þótt fái’ eg hel,
þá farðu vel,
fagurleit hríngaþilja.
12. Slíkt hrygðarkíf
við darradríf
daprar mig hverju sinni.
Það eðla víf
meðan endist líf
ætíð er mér í minni.
13. Um hyggju grind
hríngs ljúfa lind
legg eg í fersku minni.
Fríð faldastrind,
fögur kvennkind,
fast held eg elsku þinni.
14. Hvort okkur er
unnað þess hér
optar saman að ræða,
ráði guð mér
og þar með þér,
það stendur til hans gæða.
15. Hvar sem eg fer
um hauðrið hér
hugleiðing prýði þinnar,
minnisstæð mér
þeinkíng, ei þver,
þá eg sé brúðir svinnar.
16. Mun þó ráð bezt,
að fátt um flest
fyrir öld eg nú glósi.
Sú hugsan, fest
í mundáng mest,
mér sjálfum bygð hjá kjósi.
17. Lifðu nú vel.
Þig fríðum fel
föður guði, baugs tróða.
Meir en eg tel
og mál til el,
miðlist þér alt hið góða.

Heimild[breyta]

  • Ólafur Davíðsson (ritstj.) (1894). Íslenzkir vikivakar og vikivakakvæði. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafélag. bls. 258-259

Hornklofinn í 11. vísu er í útgáfunni. Væntanlega vantar þá orðið í handritið.

Þessi síða hefur verið prófarkalesin.