Landnámabók/102. kafli
102. kafli
Nú er yfir farið um landnám þau, er vér höfum heyrt, að verið hafi á Íslandi, en þessir landnámsmenn hafa göfgastir verið í Sunnlendingafjórðungi: Hrafn hinn heimski, Ketill hængur, Sighvatur rauði, Hásteinn Atlason, Ketilbjörn hinn gamli, Ingólfur, Örlygur gamli, Helgi bjóla, Kolgrímur hinn gamli, Björn gullberi, Önundur breiðskeggur.
Svo segja fróðir menn, að landið yrði albyggt á sex tigum vetra, svo að eigi hefir síðan orðið fjölbyggðra; þá lifðu enn margir landnámsmenn og synir þeirra.
Þá er landið hafði sex tigu vetra byggt verið, voru þessir höfðingjar mestir á landinu: í Sunnlendingafjórðungi Mörður gígja, Jörundur goði, Geir goði, Þorsteinn Ingólfsson, Tungu-Oddur, en í Vestfirðingafjórðungi Egill Skalla-Grímsson, Þorgrímur Kjallaksson, Þórður gellir, en norður Miðfjarðar-Skeggi, Þorsteinn Ingimundarson, Guðdælir, Hjaltasynir, Eyjólfur Valgerðarson, Áskell goði, en í Austfirðingafjórðungi Þorsteinn hvíti, Hrafnkell goði, Þorsteinn faðir Síðu-Halls, Þórður Freysgoði. Hrafn Hængsson hafði þá lögsögu.
Svo segja vitrir menn, að nokkurir landnámsmenn hafi skírðir verið, þeir er byggt hafa Ísland, flestir þeir, er komu vestan um haf. Er til þess nefndur Helgi magri og Örlygur hinn gamli, Helgi bjóla, Jörundur kristni, Auður djúpauðga, Ketill hinn fíflski og enn fleiri menn, er komu vestan um haf, og heldu þeir sumir vel kristni til dauðadags. En það gekk óvíða í ættir, því að synir þeirra sumra reistu hof og blótuðu, en land var alheiðið nær hundraði vetra.