Landnámabók/7. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
7. kafli

Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: „Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.“ Ingólfur lét búa gröf þeirra Hjörleifs og sjá fyrir skipi þeirra og fjárhlut.

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.

Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.